Ostakökubrownies Önnu Margrétar

17382_10153120258091071_1491784332011645847_nÉg þakka Kidda bróður mínum kærlega fyrir áskorunina. Mér þykir fátt leiðinlegra en að elda og það er mér álíka kvöð og að vaska upp og skúra. Að auki bý ég með þremur matvöndustu einstaklingunum á Íslandi þannig að hvatinn til að elda er fremur lítill. Að reyna að elda mat sem allir á heimilinu geta borðað er álíka vænlegt til árangurs og að biðja kött um að fara í bað. Engu að síður eyði ég talsverðum tíma við eldavélina ellegar myndi fjölskyldan svelta í hel þar sem ekkert þeirra gæti matreitt sér til lífs. En kökur eru ávallt vinsælar og ætla ég að deila hér uppskrift af „ostakökubrownies“ sem slær allstaðar í gegn. Ég mæli alls ekki með því að borða mikið af henni í einu því þá er maður rúmliggjandi þar sem eftir er dagsins og með andlega vanlíðan og útlitskomplexa næstu daga.

Það sem þarf í brownies:
115 gr suðusúkkulaði í bitum
85 gr smjör skorið í bita
130 gr sykur
2 egg
70 gr hveiti
1 msk kakó
½ tsk salt
1 tsk vanilluextract
80 gr suðusúkkulaði saxað gróft

Það sem þarf í ostakökuna:
225 gr rjómaostur
1 eggjarauða
75 gr sykur
½ tsk vanilluextract

Bræðið smjörið og súkkulaðið saman yfir vatnsbaði og hrærið reglulega. Á meðan það er að bráðna setjið þurrefnin saman í skál ásamt eggjunum. Blandið öllu saman með sleif og skellið saxaða súkkulaðinu með í lokin. Setjið allt ostakökuhráefnið saman í aðra skál og þeytið vel saman með handþeytara (eða hamist á þessu með písk) þar til engir kekkir eru sjáanlegir.
Smyrjið ferkantað 23 cm form (ég kaupi yfirleitt álform úti í búð) og hellið súkkulaðiblönduni í og dreifið jafnt. Að endingu er ostablöndunni hellt ofan á í nokkrum slettum og dreifið létt saman við.
Bakið í miðjum ofni við 175° 35-40 mínútur eða þar til miðjan hefur stífnað.
Ekki taka kökuna úr forminu áður en hún hefur kólnað ALVEG, ég hendi henni yfirleitt út á svalir eða í frystinn. Skerið kökuna í litla “brownies” bita og njótið vel!

Ég ætla að skora á íþrótta-heilsufræðinginn og systur mína frá annari móður, Maríu Kúld að koma með næstu uppskrift. Henni leiðist ekki að éta frekar en mér og ætti því ekki lenda í neinum vandræðum með þetta. Ef ég þekki hana rétt þá leggur hún predikanir um heilbrigt matarræði á hilluna og býður upp á eitthvað syndsamlegt.

Anna Margrét Pálsdóttir