Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Ótrúlegur uppgangur hjá Skotfélagi Snæfellsness

Um leið og við sendum Snæfellingum öllum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í starfsemi félagsins á árinu. Á nýliðnu ári fagnaði Skotfélag Snæfellsness 30 ára starfsafmæli og má segja að þetta hafi verið mjög viðburðaríkt ár, það allra besta í sögu félagsins. Í byrjun árs 2017 var fyrsta skóflustungan tekin að langþráðu skothúsi sem mun bæta alla aðstöðu til skotæfinga hér á Snæfellsnesi.

Með hækkandi sól tók síðan við hver viðburðurinn af öðrum s.s. riffilmót, skemmtikvöld, leirdúfumót, unglingakvöld, konukvöld, skotvopnanámskeið, skotvopnasýning og lengi má telja. Á 15 vikna tímabili yfir hásumarið voru 11 stórir viðburðir skipulagðir af félaginu og má því segja að það hafi verið nóg að gera. Þar fyrir utan var æfingasvæði félagsins í stöðugri notkun, en þar er skotið nánast daglega allt árið um kring.

Félagsmönnum er sífellt að fjölga og eru skráðir félagsmenn í dag 153 og hafa aldrei verið fleiri. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað konunum hefur fjölgað mikið undanfarna mánuði og það sem er svo skemmtilegt við þessa íþrótt er að allir geta stundað hana á jafningjagrundvelli hvort sem menn eru ungir, gamlir, langir eða breiðir. Margir hafa t.a.m. fundið skotíþróttina sem sameiginlegt fjölskyldusport þar sem foreldrar, unglingarnir, systkini og jafnvel amma og afi stunda sameiginlegt áhugamál í fallegu umhverfi.

Æfingaaðstaða félagsins er alltaf að verða betri og betri og skotmenn annars staðar af landinu eru farnir að koma hingað í síauknu mæli til að stunda skotæfingar eða taka þátt í viðburðum sem skipulagðir eru af skotfélaginu okkar. Við höfum nú þegar fengið gríðarlega mikla athygli á landsvísu fyrir blómlegt félagsstarf og mikla uppbyggingu. Stjórn Skotfélags Snæfellsness er mjög stórhuga hvað framtíðina varðar og stefnir að því að vera ekki bara eitt virkasta skotfélag á landinu heldur einnig að geta státað okkur af einum besta skotíþróttavelli á landinu.

Við erum alveg gríðarlega ánægð með það hvað við höfum fengið mikinn meðbyr úr öllum áttum og það eflir okkur enn frekar í að gera enn betur og koma Snæfellsnesinu enn frekar á kortið.

Við vonum svo sannarlega að þessi jákvæða þróun muni halda áfram næstu ár og að félagið geti haldið áfram að stækka og dafna. Hægt er að fylgjast með starfsemi félagsins á heimasíðunni okkar www.skotgrund.123.is og við bjóðum um leið alla áhugasama velkomna í félagið okkar allra.

Skotfélag Snæfellsness