Persónukjör í sveitarstjórnarkosningunum í vor?


„Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér“ segir í stórgóðu ljóði Megasar við lagið Tvær stjörnur. Nú liggur fyrir að ekki verður af sameiningu sveitarfélaganna Stykkishólms, Helgafellssveitar og Grundafjarðar. Í vor verða sveitarstjórnarkosningar og venju samkvæmt fer af stað undirbúningur framboða til bæjarstjórnar. Listar keppa um hylli bæjarbúa, með misstórum loforðum, og samfélög skiptast í hópa og fylkingar sem fylgja framboðunum að málum. Oft heyrum við í umræðunni um bæjarstjórnarkosningar að fólk spyr: Af hverju get ég ekki kosið fólk? Af hverju þarf ég að kjósa lista af fólki þegar ég myndi gjarnan vilja kjósa fólk af öllum listum ef ég hefði möguleika á því.
Við hjá L-listanum höfum brugðist við þessari kröfu af einhverju leyti. Við höfum verið með opið forval þar sem allir sem vilja geta boðið sig fram og allir sem vilja mega taka þátt í kosningunum og haft áhrif á uppröðun listans.

Er ekki bara spurning um að okkar samfélag taki skrefið til fulls og það verði persónukjör í vor? Hvað þarf til að svo geti orðið? Samkvæmt sveitastjórnarlögum eru allir í kjöri ef enginn listi býður fram. Í til dæmis Dalabyggð hefur verið persónukjör undanfarnar tvær sveitastjórnarkosningar. Einstaklingar geta boðið sig fram á eigin verðleikum óháð flokkum eða listum. Samstarf sveitastjórnafulltrúa gengur vel og ekki er dregin lína milli einhverskonar meirihluta og minnihluta. Lýðræðið talar í sinni bestu mynd. Eftir kosningar er ráðinn bæjarstjóri sem er faglega sterkur og vinnur ekki fyrir annan hlutann frekar en hinn. Ákvarðanir eru teknar eftir umræður allra fulltrúanna og samtalið hverfist ekki um átakalínur þar sem jafnvel mjög stórar ákvarðanir eru teknar án samtals eða samráðs við minnihluta bæjarstjórnar og íbúa.
Það er nefnilega þannig í raun að bæjarstjórnarkosningar snúast ekki um nein völd heldur að þeir sem valdir eru í bæjarstjórnir finni bestu leiðirnar til að þjónusta íbúana sem best miðað við það fjármagn og tækifæri sem eru í stöðunni hverju sinni.

Já, tíminn flýgur áfram og áður en við vitum af eru jólin liðin, nýtt ár heilsar og stuttu síðar förum við að heyra í Kríunni. Það er því rétt að við sem höfum áhuga á samfélaginu okkar og viljum vinna því gagn á vettvangi sveitarstjórnarmálanna tökum þessa umræðu.

Erum við ekki bara komin á þann stað að sameinast um, að í vor verði persónukjör í bæjarstjórnarkosningum í Stykkishólmi? Hvað finnst þér?

Lárus Ástmar Hannesson, Ragnar Már Ragnarsson, Helga Guðmundsdóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir og Hjarki Hjörleifsson