Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Persónukjör til sveitarstjórnar

Að undanförnu hafa verið umræður í Stykkishólmspóstinum og meðal bæjarbúa um hvort að beri að stefna að persónukjöri fyrir næstu sveitarstjórnakosningar. Gefnar hafa verið nokkrar ástæður fyrir slíkri kosningu. En hvað þýðir persónukjör til sveitarstjórnar.

Í lögum um kosningu til sveitastjórna kemur fram að almennt skuli kjósa listakosningu. Ef hins vegar engir framboðslistar berast áður en  framboðsfrestur rennur út þremur vikum fyrir kjördag skal kosning verða óbundin, persónukjör.  Persónukjör er því undantekning frá meginreglunni um listakjör og skal gripið til þess við ákveðnar aðstæður. Stjórnmálaöfl  hafa  því hvorki vald né umboð til að semja um það fyrirfram að fram skuli fara persónukjör.

Í persónukjöri eru, samkvæmt lögum um sveitarstjórnarkosningar, allir þeir sem eru kjörgengir, heilir og hraustir og yngri en 65 ára, skylt að taka kjöri í sveitarstjórn, nema þeir séu löglega undanþegnir eða hafa fyrirfram skorast undan kjöri. Kjörseðillinn er tvískiptur þar sem kjósandi skal skrifa nöfn og heimilisföng aðalmanna á efri hluta seðilsins en nöfn og heimilisföng varamanna á neðri hlutann. Í Stykkishólmi yrðu kjósendur því að rita 14 nöfn og heimilisföng á kjörseðilinn.

Persónukjör til sveitarstjórna heyrir því til undantekninga. Í flestum tilfellum fer það fram í fámennum sveitarfélögum þar sem annað form er ekki mögulegt. Það kemur ekki í ljós fyrr en búið er að telja upp úr kjörkössunum hverjir hljóta kosningu í bæjarstjórn. Engin vissa er fyrir því að þeir sem hljóta kosningu vilji eða hafa áhuga á því að leiða 1200 manna bæjarfélag. Þá er engin trygging fyrir því að þeir sem ná kjöri nái að starfa saman eða hafi sömu sýn til afgreiðslu mála. Meirihlutinn getur farið eftir ýmsu sem gerir það að verkum að bæði stefna og stjórn sveitarfélagsins verður bæði óskýr og tilviljanakennd.

Með listakosningu er aftur á móti ljóst hverjir eru tilbúnir til að gefa kost á sér til starfa í bæjarstjórn. Að baki hvers framboðslista liggur stefnumörkun í bæjarmálum sem frambjóðendur eru sammála um að vinna framgang. Að baki hvers framboðs er að auki hópur fólks sem hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við það og myndar bakland þeirra sem veljast í sveitarstjórn af viðkomandi lista. Kjósendur vita þegar þeir koma að kjörborðinu hvað er í boði og þá dugar einn kross fyrir framan listabókstaf.

Gunnlaugur Árnason