Refir og kettir

Nú líður að lokum fyrirlestraraðar Náttúrustofu Vesturlands. Í síðustu viku fjallaði Ester Rut Unnsteinsdóttir um íslenska refinn en íslenski stofninn er einn einangraðasti stofn heimskautarefs og hefur að ýmsu leyti mikla sérstöðu. Ester tók við vöktun stofnsins eftir lát Páls Hersteinssonar árið 2011 en hann hafði byggt upp einstakan gagnagrunn um íslenska stofninn með því að rannsaka hræ af dýrum sem veiðimenn sendu til hans; samvinna sem borið hefur mikinn ávöxt hvað þekkingu á stofninum varðar.

Íslenski refastofninn var í lágmarki frá 1970-1980 í kjölfar kuldaskeiðs, mikilla veiða og eitrunar. Eftir að eitrunarherferðinni var hætt óx stofninn fyrst rólega en svo með auknum hraða, og var um tífalt stærri árið 2008 en í lágmarkinu. Á síðustu árum virðist stofninn hafa minnkað eitthvað aftur, þótt enn séu refir miklu fleiri en fyrir 40 árum. Allt frá því rannsóknir hófust á 8. áratugnum hefur meðalfrjósemi haldist nær óbreytt en fæðuframboð fyrir ref jókst mikið með stækkandi fuglastofnum (einkum fýl, vaðfuglum og gæs) og auknum útburði ætis að vetrarlagi. Helsta breytingin í refastofninum, sem varð til að hann stækkaði, var að hærra hlutfall kynþroska dýra tók þátt í æxlun.

Tíunda og síðasta fræðsluerindið verður í næstu viku en þá fjallar Menja von Schmalensee frá Náttúrustofu Vesturlands um heimilisköttinn og áhrif hans á fuglalíf. Erindið verður haldið á ráðhúsloftinu, miðvikudaginn 24. maí kl. 20.