Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Reitarvegur – hinn nýji

Reitarvegur-Drífa ÁrnadóttirÍ kjölfar áhugaverðra umræðna um nýtt skipulag á Reitarvegi langar mig að benda á þá lausn sem ég tók fyrir í lokaverkefni mínu í Bs-námi í Umhverfisskipulagi, þ.e. blönduð byggð á iðnaðarsvæði með sterkum staðaranda og vistvænum áherslum.
Sjálfbærni og vistvænar áherslur í skipulagi er ekki lengur val, heldur almenn krafa. Miðað við aukna umhverfisvakningu í Stykkishólmi og áherslur sveitarfélagsins á sjálfbærni liggur í augum uppi að krafa er um vistvænar lausnir hér í bæ. Markmiðið með sjálfbæru skipulagi er að efla gæði íbúðarhverfisins og taka umhverfislega ábyrgð með vistvænum lífsstíl. Ekki er pláss til að fara yfir alla þætti sjálfbærs skipulags í þessum pistli en það sem ég vil leggja áherslu á er staðarandinn sem er mikilvægur þegar kemur að sjálfbæru skipulagi.
Allir staðir hafa karakter, en það er sérkenni hvers staðar sem gerir hann einstakan og fólk nær tenglsum við. Staður felur í sér samband náttúrunnar og manngerðra hluta og getur innihaldið sögu og tengsl manna við staðinn. (Bell, 2004)
Staðarandinn í Stykkishólmi er sterkur og hægt er að rekja sögu bæjarins aftur til 13. aldar. Bæjarbúar hafa unnið jafnt og þétt að því að gera upp gömlu húsin í miðbænum og fegra umhverfið þar í kring. Þetta ýtir undir sterka götumynd þegar komið er niður að höfn sem eflir staðarandann og sögu bæjarins.
Á Reitarvegi er saga um fiskverkun og ber svæðið þess merki enn í dag. Fram á fjórða áratug 20. aldar var saltfiskur sólþurrkaður á Reitarvegi. Þá var bátalægi neðan við Reitarveginn þar sem fiski var landað, hann saltaður og síðan farið með hann upp á Reit þar sem hann var sólþurrkaður. Þegar komið var að þurrkun var stór bjalla notuð til að hringja mannskapinn ,,út á Reit” í vinnu, þaðan kemur nafnið Reitarvegur. (Ásgeir Gunnar Jónsson, munnleg heimild, 25. janúar 2013) Gömul grjóthleðsla, þar sem bátalægi var, er það eina sem eftir er til minningar um saltfiskþurrkunina. Gamlar skemmur á svæðinu ýta hins vegar undir verbúðarandann og iðnaðinn sem hefur verið á svæðinu í gegnum árin. Nálægðin við sjóinn styrkir tengslin og landfræðilegir eiginleikar svæðisins skapa mörg tækifæri sem hægt er að vinna áfram með.
Hægt er að bæta notkun almennings á svæðinu og skapa blandaða byggð með því að varðveita það sem gerir svæðið sérstakt, halda í iðnaðarandann og styrkja hann og efla með nýjum tækifærum og uppbyggingu í samræmi við núverandi notkun.
Til þess að skapa sterkan staðaranda á Reitarvegi er mikilvægt að halda í þýðingarmikil landfræðileg sérkenni t.d. með því að bæta aðgengi að sjónum, styrkja og hreinsa sjávarsíðuna, búa til útsýnisstaði og bæta aðgengi út í Landey. Það væri gaman að halda í fiskverkunarandann og hafa einhver tengsl við fiskverkun í gömlu beituskúrunum t.d. sölu á ferskum fiski, kajak- og smábátaaðstöðu, beitningaraðstöðu, veitingastað o.fl. Það myndi einnig tengja fólk við sögu svæðisins ef hægt væri að gera upp gömlu grjóthleðsluna og nýta hana sem bátalægi. Einnig er hægt að vinna með núverandi staðaranda í útfærslum á efnivið á borð við stórgrýti, timbur, bárujárn, hellulögn o.fl. sem ýtir undir karakter svæðisins. Sá iðnaður sem hentar inan um íbúðarbyggð væri t.d. aðstaða fyrir Náttúrustofu Vesturlands og Æðardúnssetur í gamla Rækjuneshúsinu og gaman væri að gera upp gamla braggann og koma þar fyrir aðstöðu fyrir skapandi starfsemi.
Meðfylgjandi mynd ætti að gefa smá sýnishorn af því hvernig stemningin og staðarandinn gæti verið á Reitarvegi í kring um gamla beituskúrinn. Pistillinn er aðeins til þess að vekja fólk til umhugsunar um verðmæti svæðisins og koma fram með öðruvísi framtíðarsýn. Áhugasömum aðilum um vistvænar lausnir í skipulagi og Reitarveg almennt vil ég benda á lokaverkefnið mitt á Skemmunni: http://skemman.is/item/view/1946/15580
Drífa Árnadóttir