Miðvikudagur , 19. desember 2018

Reitarvegur hinn nýji

silfurgatalagholt

Þann 26. september auglýsti Stykkishólmsbær opinn fund þar sem kynna átti hugmyndir vinnuhóps vegna undirbúnings deiliskipulags við Reitarveg. Þegar þessar hugmyndir eru skoðaðar þá er greinilegt að þennan vinnuhóp skortir alla framtíðarsýn. Þetta svæði er eitt af því flottasta hér í Stykkishólmi með glæsilegt útsýni yfir sjóinn og kvöldsólarlag. Hjá öðrum bæjum er þróun byggðar í þá átt að iðnaðarsvæði eru að flytjast út úr byggð og byggð öll þéttist. Á þessu svæði ætti íbúðarbyggð að byggjast á komandi árum, en ekki iðnaður.
Samkvæmt þessu skipulagi á að byggja þar yfir þrjátíu smáhús sem ætluð eru smábátaútgerðum þannig að þeir geti verið með bátana fyrir framan húsin á afgirtri lóð eða gáma, en þessi hús koma til með að kosta 7 – 10 milljónir króna. Rætt var við nokkra smábátaeigendur en þeir sáu ekki fram á að þeirra útgerð stæði undir þannig byggingum. Þarna á líka að reisa 15 íbúðarhús, en íbúar sem búa nú á svæðinu kvarta mikið undan ónæði af stórum bílum sem fara um svæðið á öllum tímum sólarhringsins. Af því má álykta að ekki sé mikill markaður fyrir þessi hús ef núverandi starfsemi verður áfram á svæðinu. Þá kom líka sú hugmynd fram hjá vinnuhópnum að hægt væri þá bara að reisa þarna hótel ef ekki fengjust íbúar á svæðið.
Á þessu skipulagi má sjá veg út í Landey sem nær að gatnamótum Lágholts og Silfurgötu. En til þess að sá vegur geti orðið að veruleika þarf að gera skarð í höfðann, en þessi höfði er eitt af séreinkennum Stykkishólms. Erum við Stykkishólmsbúar virkilega tilbúnir til að fara að eyðileggja þennan fallega höfða? Umræddur vegur á að liggja milli Lágholts 2 og Silfurgötu 42, þó ekki sé pláss fyrir veg milli húsa þar, en svona vegur verður 6 metra breiður með 1,5 metra gangstétt sitthvoru megin við og öryggissvæði, samtals um 15 metrar breiður. Fjarlægð milli húsa er 17 metrar, en 2 metrar eru milli lóðamarka þó lóðamörk séu ekki sýnileg í dag. Samkvæmt Byggingarfulltrúa stendur jafnvel til að setja hringtorg á gatnamótin en þá verður ekki betur séð, að mati okkar sem þetta skrifa, en að rífa þurfi tvö til fjögur hús til að koma því fyrir þar.
Í auglýsingu fyrir fundinn sem birtist í Stykkishólms-Póstinum nokkrum tímum fyrir fund er verið að auglýsa breytingu á deiliskipulagi á Reitarvegi en ekki breytingu á deiliskipulagi í Lágholti og Silfurgötu. Það hefði þó verði einfalt mál fyrir vinnuhópinn að auglýsa fundinn svo að allir sem töldu sig málið varða gætu mætt og sagt sína skoðun á tillögunum. Það var þó ekki gert heldur var einungis eigendum húseigna á Reitarvegi sent formlegt bréf og þeir boðaðir á fundinn. Vinnuhópnum fannst ekki ástæða til að boða á fundinn eigendum húseignanna milli Lágholts og Silfurgötu þar sem leggja á veg yfir þeirra lóðir eða vera í sambandi við þá eftir fundinn. Nú hefur verið framlengdur frestur til að koma með athugasemdir vegna þessa skipulags um þrjár vikur. Þó þau tímamörk hafi ekki verið auglýst áður og er nú þegar ein vika liðin af framlengdum tíma. Einnig má benda á að í vinnuhópnum eru menn sem hafa hagsmuni af því að umferð af Reitarvegi færist á þennan nýja veg. Vilja Stykkishólmsbúar virkilega eyðileggja Ytri-höfðann?

Íbúar Lágholts 2.