Miðvikudagur , 19. desember 2018

Rökkurdagar 6. – 14. nóvember í Grundarfirði

IMG_7797Nú er sá árstími að renna upp þar sem Grundfirðingar fagna Rökkurdögum. Að þessu sinni nær dagskráin frá 6. – 14. nóvember. Rökkurdagar í ár verða með nokkuð hefðbundnu móti en þó er töluvert um nýjungar í dagskránni. Í ár var sú ákvörðun tekin af hafa Rökkurdagana með frönsku þema, það var ákveðið í kjölfar tónleika fransk-íslensku sinfóníuhljómsveitarinnar í september. Dagskráin er sniðin með það í huga að allir bæjarbúar finni eitthvað við sitt hæfi.
Við byrjum hátíðina að þessu sinni með fyrirlestrinum Ég elska þig stormur. Þar mun Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur frá veðurstofu Íslands tala um vind og áhrif landslags á vindinn. Eru til einhverjar fyrirbyggjandi aðferðir sem gætu virkað í Grundarfirði? Þessari spurningu og mörgum fleiri mun Guðrún Nína svara í Bæringsstofu miðvikudagskvöldið 6. nóvember kl 20.00. Látum þennan flotta viðburð ekki sem vind um eyru þjóta og fjölmennum. Það verður heitt á könnunni og frítt inn á fyrirlesturinn.
Um árabil hefur sérvöruverslunin Búrið í Nóatúni rekið ostaskóla við gífurlegar vinsældir. Nú ætlar ostaskólinn í fyrsta sinn að leggja land undir fót og heimsækja okkur íbúa Grundarfjarðar. Sælkerinn Eirný Sigurðardóttir mun leiða okkur inn í heim ostanna af sinni alkunnu snilld. Hún mun einnig fræða okkur um vín og samspil þessara tveggja afurða á bragðlaukanna. Þemað er Frakkland og því eingöngu franskir ostar og vín á boðstólum. Nemendur fá að smakka á allmörgum tegundum osta og má segja að námskeiðið jafngildi heilli máltíð. Skráning fer fram á bæjarskrifstofunni eða í netfang alda@grundarfjordur.is Rétt er að taka það fram að takmarkaður fjöldi kemst að í þessum skemmtilega skóla og því um að gera að skrá sig sem fyrst. Skólagjaldið er 4.900 krónur.
Rökkurdagar standa í rúma viku og eru alls um 25 viðburðir sem prýða dagskránna, má þar nefna Harmonikkuball, Góa og baunagrasið, kvikmyndasýningar, Friðrik Dór og margt fleira. Það eru allir velkomnir á Rökkurdaga. Dagskráin verður auglýst í næsta tölublaði Stykkishólms-Póstsins og á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar.
Fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar
Alda Hlín Karlsdóttir
Menningar- og markaðsfulltrúi