Samantekt úr sögu UMF. Snæfells

Sigurþór Hjörleifsson

 

UMF.Snæfell er stofnað 23. október 1938. Saga Snæfells er um margt merkileg. Félagið hefur í gegnum tíðina átt mjög gott og frambærilegt íþróttafólk á landsvísu í frjálsum íþróttum, sundi, badmintoni, körfubolta, knattspyrnu og íslenskri glímu

Glíma:

Glímufélagið Þór starfaði (1912-1930) all lengi áður en UMF.Snæfell var stofnað. Þeir Þórsfélagar áttu vaska sveit glímumanna sem keppti eitthvað útá við en aðallega innanhéraðs. Þá var glímt víða á nesinu en á þessum tíma var Þórsmótið haldið árlega hér í Stykkishólmi og oftast var nánast einvígi við glímumenn úr Miklaholtshreppi sem áttu vaska sveit á að skipa. þessar sveitir áttu bæði stóra og sterka glímumenn og líka létta og lipra sem komu jafnan standandi niður eftir klofbragð eða sniðglímu á lofti, eitthvað var um að menn færu úr axlarlið en það var fljótt að gleymast. Svo var það árið 1965 eða 1966 að hingað flytur Sveinn Guðmundsson ættaður úr Svefneyjum, frábær glímumaður og svo kom íþróttakennarinn Már Sigurðsson frá Geysi í Haukadal.

Þá var farið að æfa glímu aftur í Stykkishólmi og var það dágóður hópur. Sveinn var á þessum tíma í fremstu röð á Íslandi, vann marga sigra og varð Glímukóngur Íslands 1969.

Badminton:

Stykkishólmur var lengi kallaður badmintonbærinn. Það var all fjölmennur hópur sem æfði og keppti í þessari íþrótt, og eignaðist félagið marga Íslandsmeistara mörg ár í röð. Þá var haldin  bæjarkeppni við tennis og badmintonfélag Reykjavíkur í einhver ár. Til dæmis árið 1957 þá vann okkar fólk 10 leiki en Reykjavík 6 leiki, en þessi keppni fór fram í Stykkishólmi.

Á íslandsmótið 1958 fóru 8 keppendur á mótið, félagið hlaut engan Íslandsmeistara að þessu sinni og er það í fyrsta sinn í 8 ár sem að það kemur fyrir.

Íslandsmótið í badminton hið 10. í röðinni fór fram í Stykkishólmi og var það í fjórða sinn sem það var haldið hér, en Snæfell sigraði í 8 flokkum af 10.

í mótslok afhenti Guðjón Einarsson frá ÍSÍ Snæfelli aðildarfána ÍSÍ fyrir forystu í badmintoníþróttinni um 10 ára skeið. Að öllum ólöstuðum held ég að Ágúst Bjartmars hafi átt stóran þátt í þessum stórmerkilega árangri frá ekki stærra bæjarfélagi. Árið 1960 átti Snæfell svo íslandsmeistara í þremur flokkum.

Sund:

Sundíþróttin hefur trúlega verið stunduð hér frá því að sundlaugin við rafstöðina var byggð.

Snæfell hefur í gegnum tíðina átt mjög frambærilegt sundfólk, meðal annars unnið til verðlauna á Landsmótum UMFÍ og átt marga héraðsmeistara og fjölda héraðsmeta. Á tímabili var sunddeild Snæfells og sunddeild Ægis í Reykjavík með samvinnu, hittust og æfðu saman.

Til gamans má geta þess að árið 1968 voru alls 54 börn og unglingar við æfingar í sundi og urðu æfingartímar félagsins alls 484.

Mikil breyting varð á allri aðstöðu til sundiðkunar við tilkomu nýju sundlaugarinnar við Íþróttamiðstöðina.

Frjálsar íþróttir:

Allar götur frá árinu 1939 hefur Snæfell átt virkilega frambærilegt frjálsíþróttafólk, þrátt fyrir að aðstæður væru ekki upp á það besta og ekki voru stundaðar reglulegar æfingar, og alls ekki yfir vetramánuðina eins og gert er í dag. Samt var frjálsíþróttafólkið að ná ótrúlega góðum árangri og stóðst fyllilega samanburð á landsvísu, og unnu marga sigra á héraðsmótum HSH og einnig stigakeppni þessara móta. Mikil breyting verður á allri umgjörð á starfi frjálsra íþrótta hjá Snæfelli þegar Sigurður Helga var ráðinn íþróttakennari hér. Hann var þá búinn að vera við nám í Bandaríkjunum er tengdist þjálfun íþróttafólks. Þá var komið á skipulögðum æfingum. Næstu árin hafði Snæfell mjög öflugan hóp frjálsíþróttafólks bæði karla og kvenna á að skipa. Á árunum milli 1950 og 1960 settu þau Jón Pétursson og Svala Lárusdóttir Íslandsmet í hástökki og komust þannig í landslið Íslands. Lengi var keppt um 17. júní bikar fyrir besta afrekið samkvæmt stigatöflu. Fyrst var keppt um bikarinn árið 1944.

í allmörg ár var keppni á milli UMF. Reykdæla og Snæfells og voru þessi samskipti þessara félaga mjög skemmtileg og krefjandi fyrir íþróttafólkið. Svo líða árin og nýjar kynslóðir taka við keflinu bæði í starfi og keppnisfólki. María Guðnadóttir kemur fram á sjónarsviðið upp úr 1970 kornung mikill hástökkvari og spjótkastari sigraði á nokkrum landsmótum, átti best 1.74 m í hástökki og varð fyrst íslenskra kvenna til að kasta spjóti yfir 40 metra. María dró vagninn lengi í frjálsum íþróttum með sínum mikla áhuga og var þjálfari í mörg ár.

Svo komu mjög sterkir árgangar krakka sem voru fædd frá 1967 og til 1981 sem urðu afburða gott íþróttafólk og eignuðumst við marga Íslandsmeistara í yngri flokkum og allt upp í fullorðinsflokka. Til gamans má geta þess að á einu héraðsmóti HSH 1986 eða 87 stukku 3 ungir piltar úr Snæfelli 1.90 í hástökki á sama mótinu. Á árunum á milli 1983 – 1993 var árleg bæjarkeppni við UMF. Selfoss, þar sem keppt  var til skiptis heima og heiman. Keppt var í flokkum 10 ára og yngri 11-12 ára og 13-14 ára, þessi samskipti voru afskaplega skemmtileg og krefjandi fyrir unga fólkið.

Árin 1989 og 1990 var farið með þessa aldurshópa í æfingabúðir á Laugarvatn. Þar var frábær aðstaða dvalið var í eina viku í hvort skipti. Þessar ferðir tókust mjög vel, og skiluðu árangri íþróttalega séð og ekki síst félagslega. Mikil breyting varð á allri aðstöðu til æfinga yfir vetramánuðina með tilkomu nýja íþróttahússins, og þá var líka hægt að halda alvöru innanhúsmót.

Sigurþór Hjörleifsson sá um þjálfun yfir vetramánuðina í nokkur ár svo var hér erlendur þjálfari í tvö sumur 1989 og 1990 Sussana Nement að nafni. Á þessum árum voru um 40-50 krakkar og unglingar að æfa frjálsar. Hér var haldin bikarkeppni FRÍ 3. deild og unglingalandsmótið 2002. Það tókst í alla staði mjög vel og var félaginu til sóma. Vel mannað af starfsfólki af öllu HSH svæðinu.

Einar Þór Einarsson var ráðinn þjálfari hér í ein 3-4 ár, vann frábært starf og náði upp mikilli stemningu. Einar var líka héraðsþjálfari en síðust ár hafa frjálsar átt erfitt uppdráttar, en enn er þó unnið gott starf en mætti vera öflugra.

Handknattleikur:

Handknattleikur var stundaður hér innan Snæfells í nokkur ár 1950 – 1956 bæði karla og kvenna. Ekki eru til miklar heimildir um það en samt á landsmóti UMFÍ 1955 á Akureyri náðu handknattleiksstúlkur frá Snæfelli 3. sæti. Þessar skipuðu liðið; Nína Eiríksdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Inga Bjartsmars, Lovísa Sigurðardóttir, Ebba Lárusdóttir, Birna Bjarnadóttir, Sigurborg Sigurðardóttir, Ólöf Ágústsdóttir, Inga Gestsdóttir, og Inga Lára Lárentzínusdóttir. Á þessum árum var handboltinn á Landsmótum spilaður utandyra og yfirleitt á grasi.

Svo þegar nýja íþróttahúsið kom þá var handboltinn endurvakinn og stofnuð deild innan Snæfells, en það stóð stutt yfir 1 eða 2 vetur og síðan ekki meir.

Ekki mun ég fara neitt yfir körfuboltann hér í Stykkishólmi honum  hefur áður verið gerð góð skil

Þó svo að knattspyrna hafi verið lengi stunduð í Stykkishólmi þá eru til frekar litlar heimildir um hana, og verða einhverjir mér fróðari menn að sjá um þau skrif.

 

Áfram Snæfell
Sigurþór Hjörleifsson