Sameining

Eins og áður hefur komið fram standa yfir viðræður milli forsvarsmanna Grundarfjarðar-bæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar um það hvort sameining umræddra sveitarfélaga sé vænlegur kostur. Þessum viðræðum hefur verið stjórnað af ráðgjafasviði KPMG en þeir hafa aðstoðað önnur sveitarfélög sem velta fyrir sér hagkvæmni sameininga. Þeir hafa sérþekkingu í sviðsmyndagreiningum eða framtíðarfræðum, þar sem helstu drifkraftar í starfsumhverfi sveitarfélaganna eru greindir og möguleg þróun þeirra til framtíðar, með og án sameiningu.
Nú liggur fyrir niðurstaða netkönnunar og eru niðurstöður hennar nokkurs konar stöðumat og mikilvægt inn í næstu skref vinnunnar.

Þessa vikuna vinna kjörnir fulltrúar með ráðgjöfunum, en næstu skref eru vinnufundir íbúa í byrjun september. Mikilvægt er að íbúar taki þátt í vinnufundunum sem stjórnað verður af ráðgjöfunum og verða haldnir í öllum sveitarfélögunum (sjá nánar auglýsingu í blaðinu).
Samstarfsnefndin mun taka ákvörðun um framhaldið og hvort gengið verði til kosninga um sameiningu, eftir að niðurstaða vinnufundanna liggur fyrir. Það er ljóst innan nefndarinnar að ekki verður boðað til kosninga nema niðurstaða sviðmyndagreiningar og vinnufunda bendi til þess að sameinuð sveitarfélög verði betur í stakk búin til að veita íbúunum nauðsynlega þjónustu í framtíðinni.

Fyrir hönd samráðsnefndarinnar:
Hafdís Bjarnadóttir forseti bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar og ritari samráðsnefndar