Samkomuhúsið

Það var gaman að lesa um húsið sem nefnt var Bíó og er við Aðalgötuna í Stykkishólmi í Stykkishólms-Póstinum 9. nóvember s.l. sem Hrefna Jónsdóttir skrifaði um og minntist föður síns um leið. Ég man nokkuð vel eftir Jóni A. Sigurgrímssyni þegar hann var á Vegamótum.
Það kom í minn hlut að fara með mjólk í glerflöskum sem svo voru settar í ullarsokka svo þær brotnuðu ekki. Ég fór á Rauð gamla niður að Vegamótum svona 3-4 sinnum á viku og alltaf var vel tekið á móti mér og ég fékk alltaf einhverja sæta köku.
En lítið var um sætindi í Hrísdal á þessum árum. Alltaf var hlýlega tekið á móti mér og svo var ég og Ólína bræðradætur.
Þessar ferðir lögðust niður þegar Jón og fjölskylda fluttist inn í Stykkishólm. En í Stykkishólmi hélt fjörið áfram – í húsinu sem Jón keypti – og gerði upp – það varð að fínu bíóhúsi. Eftir lát Jóns var húsið áfram bíóhús en þjónaði eftir það mörgu öðru.
Til dæmis var á hverjum vetri haldin hjónaböll og komust inn gift fólk og líka þeir sem voru með trúlofunarhringi, sko ekkert unglinga hopp og hí. Það var sérstök tilfinning að vera á þessum dansleikjum. Mikil þrengsli og ef einhver sagði eitthvað sniðugt – heyrðu það flestir. En að elda mat fyrir allan þennan fjölda var hreinn galdur.
Þetta var eldað hjá þessum og annað hjá hinum. – En oftast var hangikjötið eldað hjá Villu og Pétri. Og þrengslin slík að maður gleymir því ekki. Eitt sinn fengum við Jónas Árnason til að segja sögu – og hann sagði að þegar og ef við flyttum í stærra hús myndi þessi stemning ekki flytja með.
Þetta hús var áfram bíó – en gegndi um leið öðru hlutverki.
Þarna voru flutt mörg leikrit bæði af heimamönnum og leikfélaginu í Ólafsvík og Hellisandi. Ég man til dæmis eftir Ævintýri á gönguför og mörgum fleiri.
Þarna fluttu Hólmarar leikritin Spanskfluguna og Pilt og stúlku.
Hver man ekki eftir Hrafnkel í Hart í bak og Lukkuriddaranum og fleiri leikverk. Frá Reykjavík komu ýmsir skemmtihópar með myndir eða aðra afþreyingu.
En allt hefur sinn tíma nema eilífðin. Nú veit ég ekkert um eignarhald hússins – en vona að því verði sýndur sómi hver sem í hlut á. Þeim fækkar sem þarna unnu, því erum við þessir gömlu íbúar að rifja upp sögu Jóns A. Sigurgrímssonar og hússins við Aðalgötuna. Það eru mörg atriðin sem húsið geymir.