Sjómannadagsblað Snæfellsbæjar 2015

Forsíða bátar RifSjómannadagsblað Snæfellsbæjar 2015 kemur út fyrir Sjómannadaginn eins og áður. Blaðið sem er 90 síður og allt í lit byrjar á hugvekju eftir Sr. Óskar Inga Ingason og ávarp er frá Sigurði Inga Jóhannssyni atvinnuvegaráðherra.
Meðal efnis í blaðinu er frá sjóslysinu mikla er Bervík SH 43 fórst fyrir utan Rif  í mars 1985 en öll áhöfnin fimm sjómenn fórust í því slysi. Rætt er við Öldu Jóhannesdóttur eiginkonu skipstjórans en hún missti einnig son sinn í þessu slysi. Ævar Hafþórsson var ellefu ára er faðir hans fórst og segir hann frá sínum minningum frá því í áhrifamikilli grein. Þá ritar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um veðurfarslegar aðstæður daginn sem slysið varð. Sæmundur Kristjánsson segir í fróðlegri grein frá byrjun á hinum miklu hafnarbótum er Rifshöfnin var byggð um miðja síðustu öld en framkvæmd hennar var gríðarmikil lyftistöng fyrir allt atvinnulíf utan Ennis á þessum árum.
Rætt er við Maris Gilsfjörð en hann var olíukóngur í Ólafsvík í 30 ár og var einnig í útgerð. Eigendur HG Geisla ehf í Ólafsvík segja frá sinni starfsemi í viðtali en þeir reka bæði útgerð og ísframleiðslu og þeirra reynslu af útgerð smábáta sl 25 ár. Þá er talað við fyrrum sjómenn og verkamenn um þeirra líf og störf. Spurningar voru lagðar fyrir sjö valinkunna skipstjóra á Snæfellsnesi um lífið og tilveruna. Auk þess eru fleiri greinar og myndir m.a. frá sjómannadeginum úr sjávarplássunum á Snæfellsnesi 2014.
Pétur Steinn Jóhannsson