Sjöundi Grænfáninn í Lýsuhólsskóla

screen-shot-2017-01-13-at-14-04-39Grunnskóli Snæfellsbæjar, Lýsu­hólsskóli tók á móti sínum sjöunda Grænfána þann 20. desember 2016. Caitlin Wilson, verkefnastjóri Græn­fánaverkefnisins, afhenti nýjan fána. Afhendingin fór fram á litlu jólum skólans og þá voru einnig haldnir jólatónleikar nemenda tónlistar­ skólans.

Til grundvallar þessari sjöundu Grænfánaveitingu lágu þættirnir lýðheilsa, úrgangur og átthagar.

Hér kemur yfirlit yfir helstu verkefni sem unnin voru í tengslum við þættina:

Lýðheilsa

Nemendur tóku þátt í Norræna skólahlaupinu 2015 og Sri Chimnoy friðarhlaupinu. Nemendur yngstu deildar tóku þemaverkefni tengt svefni og hollu mataræði og gerðu meðal annars svefnrannsókn yfir heila viku. Einnig veltu þeir fyrir sér hvaða matur er hollur og í hvernig hlutföllum fæðuflokkarnir eiga að vera á diskinum.

Vinna við skólagarðinn var endurvakin en garðurinn hefur legið í dvala í nokkur ár undirlagður af krossfífli sem yfirtekur flest sem reynt er að rækta. Leitað var til nærsamfélagsins um að aðstoða og vinna við þetta verkefni. Allir sem höfðu tök á því að vera með komu og unnu saman. Ákveðið var að sá höfrum í garðinn til jarðvegsbóta og uppskeru en sauðfé tók forskot á sæluna og gæddi sér á höfrunum um skólabyrjun þannig að ekki þurfti að sinna uppskerunni frekar. Í ágúst er spínati og káli sáð í gróðurhúsinu, það vex ágætlega og er nýtt í mötuneytinu langt fram eftir hausti.

Nemendur unnu verkefni tengd matarsóun. Nemendur á yngsta stigi voru skráðir í keppnina Baráttan gegn matarsóun hjá Nordeniskolen.org var ætlunin að þeir vigtuðu matarleifar frá sínu borði í eina viku í janúar. Verkefnið vatt strax upp á sig og ákveðið var að allir, jafnt nemendur sem starfsfólk, myndu vinna saman. Markmiðið með því var að fá nemendur til að fá sér mátulega á diskinn, en þeir skammta sér sjálfir, því alltaf er hægt að nýta afgangana ef einhverjir eru. Eftir vikuna var ákveðið að halda áfram að vigta matarleifar og því var haldið áfram fram að skólaslitum.

Úrgangur/rusl

Hvers konar rusl finnum við í fjörunni? Hvernig komst það þangað? Af hverju er mikilvægt að takmarka það rusl sem fer frá okkur? Ákveðið svæði í fjöru fyrir neðan skólann var rannsakað og kom það öllum á óvart hversu mikið af ruslinu hafði ekki beina tengingu við sjávarútveg t.d. veiðafæri. Meðal þess sem fannst voru barnaleikföng, tanngómur og fjölmargir sígarettukveikjarar og nemendur veltu fyrir sér hvernig þeir hlutir hefðu komist í sjóinn eða fjöruna. Einnig fólst rannsóknin í því að afla upplýsinga um hversu langan tíma það tæki ruslið að eyðast upp í náttúrunni. Sýning var sett upp þar sem niðurstöður voru settar fram með myndrænum hætti og hefur hún vakið mikla athygli.

Nemendur tóku síðan þátt í rannsókn á vegum Umhverfis­stofnunar. Rannsóknin felst í því að ákveðið strandsvæði í Staðarsveit er rannsakað með reglulegu millibili, rusl tínt og flokkað af mikilli nákvæmni. Nemendur aðstoðuðu sérfræðing Umhverfisstofnunar við verkið.

Átthagar

Stærsta verkefnið í þessum flokki var að nemendur Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla, ásamt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, unnu að og opnuðu þann 2. júní 2016 sýningu í Salthúsinu á Malar­rifi. Sýningin var unnin veturinn 2015­ – 2016 að beiðni þáverandi þjóðgarðsvarðar, Guðbjargar Gunnarsdóttur. Guðbjörg óskaði eftir því að fá inn í Salthúsið verkefni sem höfðuðu til barna og væru unnin af börnum.

Í Salthúsinu gefur nú meðal annars að líta myndir af Lóndröngum með túlkun á því hvað þeir eru eða gætu verið, upplýsingar unnar úr viðtali við síðustu bændur og vitaverði á Malarrifi um búsetu og lífið þar. Upplýsingunum er komið fyrir á flettispjöldum og spjöldum í saltfisklíki. Kynjamyndir og tröll fá að njóta sín, leikföng barna í gamla daga eru til sýnis og hægt er að spila minnisspil og teikna myndir til að skilja eftir á töflu. Lögð var áhersla á endurvinnslu og endurnýtingu við gerð sýningarinnar. Sýningin er enn á Malarrifi og stendur ótrúlega vel af sér gestagang og veðráttu.

En nú er komið að því að velja viðfangsefni og setja ný markmið í Grænfánaverkefni svo hægt verði að flagga nýjum fána að tveimur árum liðnum.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli