Skemmtifundur Snæfells

Jón Pétursson hástökkvari
Ágúst Bjartmars og Ólafur Guðmundsson

 

Laugardaginn 5 nóvember 1938 var haldinn skemmtifundur í UMF.Snæfelli í samkomuhúsinu í Stykkishólmi kl 21:00.

Formaður setti fundinn og las upp 11 inntökubeiðnir, er allar voru samþykktar í einu hljóði. Þá skýrði íþróttanefnd frá sínum störfum. Að ákveðið hefði verið að kennd yrði leikfimi í tveimur flokkum, og að einnig hefði hún gengist fyrir því að endurbættur var stíflugarður upp í mýri svo að mögulegt væri að fá skautaís um veturinn. Því næst hófst kaffidrykkja. Meðan setið var undir borðum var lesið upp kvæðið „Hinn heiti ás eftir Jóhannes úr Kötlum“ Einnig var lesin sagan „Merkið“ og formaður las söguna „Nú lýgur minn himneskur faðir“.

Því næst var stiginn dans með miklu fjöri.

Já svona hljóðar fundargerð annars fundar í sögu Snæfells, en síðan eru liðin áttatíu ár.

N.k laugardag 27 október kl. 14:00 ætlum við halda upp á daginn með ýmsu móti í Íþróttamiðstöðinni. Til sýnis verða gamlir munir sem tengjast sögu félagsins, flutt verður hátíðarræða, fjórir einstaklingar verða sæmdir gullmerki Snæfells fyrir vel unnin störf og árangur í íþróttum. Yngsta kynslóðin mun sýna listir sínar í fimleikum, frjálsum íþróttum, knattspyrnu og körfubolta. Síðast en ekki síst verður boðið upp á kaffi og afmælistertu, og kannski stiginn dans með miklu fjöri.

Hjörleifur K Hjörleifsson, formaður UMF.Snæfells