Skólaferð til Kanada

kanadaferd-kennara-2016Jibbí, jibbí fórum öll í vetrarfrí. Nemendur, kennarar og starfsfólk grunnskólans tók forskot á sæluna og fóru í vetrarfrí dagana 12. – 18. október nokkrum dögum fyrir 1. vetrardag. Stór hluti kennara og starfsfólks ásamt nokkrum mökum hafði planað endurmenntunar- og skemmtiferð til Toronto í Kanada þessa daga. Ferðahópurinn undirbjó sig vel og stofnaði Facebook hóp og skiptist á upplýsingum allt fram að brottför. Einn kulsækinn meðlimur hópsins spurði t.d. hvort sængur væru á hótelinu okkar og reyndist svo vera. Ásamt fyrirlestrum um Uppeldi til ábyrgðar ætlaði hópurinn að heimsækja tvo skóla, en annar þeirra hrökk upp úr skaptinu og voru þá góð ráð dýr. Það bjargaðist fyrir horn því við erum með rándýran ungan stærðfræðikennara sem veiddi nýjan skóla í okkar net á beitu sem kallast Twitter. Við tókum okkur far með síðustu kröftugu haustlægðinni miðvikudaginn 12. október og skolaði okkur tímanlega í flugstöð Leifs, þessa sem fann Ameríku en týndi henni aftur og fékk fyrir bragðið viðurnefnið Leifur heppni. Rétt fyrir brottför kom hryðja og fluginu seinkað um óákveðinn tíma. Skömmu síðar kom stundarfriður og okkur hrúgað upp í vél og slegið í. Fljótlega fengum við vesturfararnir þær féttir að farangurinn hefði því miður ekki náð vélinni og var því tekið með kvenmennsku. Bjuggust flestir við því að hægt væri að kaupa tannbursta og nærbuxur í þessu næst stærsta landi í heimi. Flugum við nú aftur í tímann og lentum heilu og höldnu, þreytt, en spennt að taka rútuna á hótelið. Engin reyndist þó rútan á svæðinu eins og um var samið og tókum við því leigubíla á hótelið.

Eitthvað reyndist tengiliður okkar við Icelandair vera úti á túni því engan morgunmat fékk hópurinn þó tilboðið segði annað. Mikið mæddi á henni Berglindi okkar sem var í ferðanefnd og þurfti hún að hringja út og suður. Að lokum greiddist úr flækjunni og settist hópurinn á skólabekk til að hlusta á Judy Anderson fræða okkur um Uppeldi til ábyrgðar. Makar höfðu enga mætingarskyldu og héldu út í góða veðrið og könnuðu borgina. Judy er eldri kona sem hefur helgað sig því að breiða út fagnaðarerindi þessarar uppeldisstefnu. Geislaði hún af ákafa og einlægni þegar hún ræddi við okkur um efnið. Við hefðum sjálfsagt lekið niður af þreytu um þrjú leytið ef ekki hefði eldmóður hennar haldið okkur við efnið.

Síðdegið var notað í kaup á nauðþurftum því töskurnar kæmu ekki fyrr en daginn eftir. Skólaheimsóknir lágu fyrir snemma næsta dag og var ákveðið að leigja fjóra bílaleigubíla því ekki fannst neinn Gunni Hinriks á viðráðanlegu verði. Fjórir sjálfboðaliðar fóru í bítið á föstudeginum að ná í bílaleigubílana og keyrðu á hótelið við ljúfa leiðsögn kurteisra kvenna sem töluðu úr gps tækjum. Hækkuðu þær aldrei róminn þó tekin væri vitlaus beygja og á undirritaður þessu ekki að venjast.

Fyrri skólinn sem við tókum hús á heitir McKee Public School. Þar kynnti stjórinn okkur skólann og upplýsti okkur að hvert fylki Kanada sér um sín menntamál og fer eftir efnahag fylkjanna hversu mikið fé er sett í skólana. Þessi skóli er vel settur og lítil agavandamál en það á ekki við um þá alla. Síðan var okkur skipt í 4 hópa og fór hver hópur um skólann með leiðsögn nemenda sem upplýstu okkur um allt sem fyrir augu bar. Engin kennsla fór þar fram í myndmennt, saumum, smíði né matreiðslu og þótti okkur ljóður á.

Þá brenndum við í næsta skóla sem heitir Centennial Senior Public School. Þar var í gangi tilraunaverkefni sem nemendum skólans bauðst að taka þátt í og kostaði 200 dollara á haus. Verkefni þetta gengur út á að allt nám tengist vísindalegri nálgun. Nemendur gera verklegar tilraunir og blandast þar inn í stærðfræði, tungumál saga og allt það sem námskráin krefur um. Nemendur fá gamlar bilaðar tölvur, sem annars færu í uppfyllingar, og gera við þær sjálfir. Þetta var stórfróðlegt starf sem hreif okkur Íslendingana, enda koma þessir nemendur betur út en þeir sem stunda hið hefðbundna nám. Þarna tókum við með okkur fræ sem hægt væri að sá í okkar skólajörð.

Á heimleiðinni var komið við í risastóru outletti með fjölda búða og skyldi nú herjað sem aldrei fyrr. Minnti þetta undirritaðann á fyrsta dag í rjúpu, konur stormuðu um svæðið með glampa í augum og linntu ekki látum fyrr en allar flíkur lágu í valnum. Bílunum náðum við að skila á ögurstundu óskrámuðum þrátt fyrir gífurlega umferð.

Nú var helgin framundan og fóru ferðalangar um víðan völl. Sumir fóru í CN turninn og horfðu niður á hina en aðrir skoðuðu búðir og brugggerðir. Borgin gæti allt eins heitið Singapoor með öllum sínum skýjaklúfum og austurlenska fólkinu en þarna er hrærigrautur þjóðerna og virðast allir búa í sátt og samlyndi. Það vakti athygli okkar Hólmara hve margir virtust búa á götunni í annarlegu ástandi.

Töskurnar skiluðu sér flestar í hádeginu á laugardag og þurfti að vinda úr þeim nokkrum. Heimferðin gekk vel en ekki var laust við flugþreytu hjá mannskapnum. Nú er bara að safna saman öllu því sem við urðum áskynja í fræðunum og lauma góðum hlutum í starfið og henda hinu.

Gunnar Gunnarsson tók saman fyrir hópinn.