Skólahornið: Aðventan í leikskólanum

Á aðventunni er í leikskólanum haldið í gamlar hefðir sem hafa þróast með tímanum, sumar í meira en 50 ár.

Undanfari aðventunnar eru sérstakar vina- og kærleiksvikur sem hefjast formlega á alþjóðlega bangsadeginum í lok október en þá mæta allir með uppáhalds bangsann sinn í leikskólann og í náttfötum. Vinaverkefni eru unnin þessar nóvembervikur og vina- og kærleikslög sungin, auk þess sem börnin hefja undirbúning að því að útbúa jólagjafirnar fyrir foreldra sína, sem er algjört leyndó. Hrósmiðar sem innihalda uppbyggjandi orð um eitthvað sem gengið hefur vel hjá börnunum fara með þeim heim þessar vikur. Hafa þeir vakið mikla ánægju hjá bæði börnunum og foreldrum þeirra sem gjarnan koma miðunum fyrir á ískápnum eða vegg þar sem gott er að geta horft á þá með stolti.

Þegar aðventan gengur í garð er alltaf stefnt að því að hafa rólegheit og afslappandi stundir í leikskólanum. Í nútíma þjóðfélagi er auðvelt fyrir lítil börn að taka í sig spennuna og áreitið sem alls staðar er sjáanlegt. Spennustigið getur verið ansi hátt í börnunum en við setjum markmiðið hátt og reynum af fremsta megni að halda góðu jafnvægi þessa spennuþrungnu daga fram að jólum.

Við eigum gott samstarf við foreldrafélag leikskólans sem hefur mjög lengi séð um jólaföndur með hverri deild í upphafi aðventu, ásamt fleiri verkefnum. Í ár máluðu allir á glerkrukkur til að nota undir kertaljós. Hugsunin er að  barnið og foreldrar þess geti átt saman notalega samverustund, fengið sér kakó, smákökur og mandarínur mitt í erli dagsins og barnið átt athyglina óskipta.

Við skreytum jólatré sem stendur í salnum okkar með fjölbreyttu skrauti sem er allt, fyrir utan ljósin, búið til af börnunum sem smátt og smátt bæta á tréð eftir því sem líður á aðventuna, alveg fram að litlu jólunum. Á litlu jólunum er það helgileikurinn sem hæst trónir en fyrir honum er áratuga hefð í leikskólanum. Búningarnir eru allir komnir frá St.Franciskussystrum og orðnir mjög gamlir. Kjóll Maríu meyjar var t.d. eitt sinn kjóll Systur Lovísu sem var leikskólastjóri hér í um 30 ár til ársins 1997. Okkur rennur blóðið til skyldunnar að viðhalda þessari gömlu hefð af virðingu við áratuga starf systranna hér, þó vissulega sé leikurinn okkar í dag mjög smár í sniðum miðað við það sem tíðkaðist áður fyrr og margir Hólmarar muna. Að sjálfsögðu koma jólasveinar í heimsókn með eitthvað sniðugt í pokum sínum og dansa með okkur í kringum jólatréð.

Jólalögin eru sungin, bæði þessi gömlu góðu og einnig nýrri lög eins og Snjókorn falla sem er alltaf jafn vinsælt. Í mjög langan tíma hafa eldri deildir leikskólans (3 elstu árgangarnir), yngri deildir grunnskólans og tónlistarskólans hist í jólasamverustund í kirkjunni á Borginni. Þar flytur 3. bekkur jafnan helgileik, leikskólabörnin syngja tvö lög og tónlistarskólinn sér um tónlistaratriði. Hefur þetta verið ljúf stund. Ekki skemmir fyrir stemningunni að fá rútuferð úr leikskólanum upp í kirkju. En Gummi á Helgafelli hefur undanfarin ár komið og skutlað okkur í stóru skólarútunni og á heimleiðinni tekið smá rúnt um bæinn til að skoða jólaljósin.

Nú eru fyrstu jólasveinarnir að koma til byggða og viljum við beina því til Stekkjastaurs og bræðra  hans að gæta að hófsemi í skógjöfum sínum. Við óskum öllum ljúfra stunda á aðventunni með bestu kveðjum úr leikskólanum.

Elísabet Lára Björgvinsdóttir, leikskólastjóri