SKÓLAHORNIÐ: Tónlistarskólinn

Nú er tónlistarskólinn kominn í jólafrí. Síðustu vikurnar hafa liðið hratt eins og jafnan er þegar það er gaman. Um leið og byrjað var að æfa jólalögin í lok nóvember tókum við upp á því að skreyta skólann hátt og lágt með heimatilbúnu jólaskrauti sem allt átti að minna á tónlist með einum eða öðrum hætti. Þetta var skemmtileg nýbreytni sem kórónaði jólaskapið!

Tónleikahald og jólaheimsóknir voru með hefðbundnum hætti og lukum við þessari önn með því að heimsækja leikskólann og sjúkrahúsið þar sem flutt voru jólalög, gömul og ný. Á heimasíðu skólans er að finna myndir frá hinum ýmsu viðburðum og hér fylgja nokkrar myndir af jólaskreytingunum okkar.

Við óskum öllum bæjarbúum og öðrum velunnurum skólans gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýja árinu.

Jóhanna Guðmundsdóttir skólastjóri