Skólahornið: Tónlistarskólinn

Nú tekur tónlistarskólinn við pennanum og segir frá starfinu þar og ýmsu sem því við kemur. Í skólann eru nú skráðir rúmlega 100 nemendur á öllum aldri og kennarar eru 7 í misstórum starfshlutföllum.

Í samanburði við aðra tónlistarskóla landsins má segja að skólinn okkar sé nokkuð hefðbundinn, kennt er á flest hljóðfæri nema strokhljóðfæri (fiðlufjölskylduna), auk þess sem boðið er upp á söngkennslu. Kennd er tónfræði og fjölbreytt samspil er í boði í litlum og stórum hópum en þar ber hæst starf lúðrasveitarinnar sem starfar nú í þremur deildum. Í þeirri elstu, Víkingasveitinni, eru þeir nemendur sem lengst eru komnir í námi og í vetur prófum við að bjóða fullorðnum hljóðfæraleikurum að slást í hópinn og spila með þó þeir séu ekki skráðir í skólann.

Það er mikil vinna að verða tónlistarmaður. Að baki liggur æfingatími sem oft má telja í þúsundum klukkustunda. Oft er leiðin stríð og strembin en oft líða klukkustundirnar eiginlega án þess að maður taki eftir því af því að það er svo gaman að ná smám saman betri tökum á hljóðfærinu sínu og sambandinu við tónlistina og túlkun hennar. Skólinn okkar hefur skilað til samfélagsins nokkrum nemendum sem lagt hafa tónlist fyrir sig og náð afbragðs árangri og eiga jafnvel starfsferil úti í heimi. Í þeirra hópi má finna  tónlistarskólastjóra, tónlistarkennara, hljóðfæra-leikara og söngvara.

Nú er að renna upp sá tími skólaársins sem er í miklu uppáhaldi. Allir eru að æfa jólalög og aðra tónlist bæði fjöruga og hátíðlega sem mann langar að heyra á þessum árstíma. Og til stendur að skreyta skólann hátt og lágt. Búið er að skipuleggja 6 jólatónleika sem lesa má um á heimasíðu skólans (tonlistarskolinn.stykkisholmur.is). Þá taka nemendur skólans þátt í ýmsum viðburðum úti í bæ, jólabasar, tendrun ljósa jólatrésins frá Drammen, aðventustundum og fleiru. Einnig er ætlunin að fara í heimsóknir með jólalögin í stofnanir og fyrirtæki sem þess óska.

Á næsta ári fagnar skólinn því að 55 ár eru liðni frá stofnun hans og Lúðrasveit Stykkishólms verður 75 ára. Á svona tímamótum er rétt að minna á að alltaf er þörf á endurnýjun hljóðfæra og kennslugagna sem stöðugt koma ný á markaðinn. Velunnarar sem gætu hugsað sér að styðja við skólastarfið á þessum tímamótum gætu fengið ýmsar hugmyndir að gjöfum eða lagt skólanum lið með framlagi í hljóðfærakaupasjóðinn.

Í lokin vil ég bera fram óskir um að bæjarbúar og nágrannar eigi góða og gleðilega jólahátíð og farsælt ár 2019. Við minnum jafnframt á að á tónleika skólans eru allir hjartanlega velkomnir og aðgangseyrir er enginn.

Jóhanna Guðmundsdóttir skólastjóri