Þriðjudagur , 19. febrúar 2019

Skólahornið

Þá er fullveldisdagurinn að baki. Skólarnir á Snæfellsnesi tóku sig saman um að vinna að verkefnum í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands og að hafa sýningu 1. desember á verkum nemenda sinna, hver í sínum skóla. Dagurinn var stór í sögu þjóðarinnar enda 100 ár frá því við fengum fullveldi.  Við í GSS brutum upp skólastarfið síðustu þrjá skóladagana fyrir 1. des. Allir nemendur skólans völdu sér ákveðið viðfangsefni sem starfsfólk var búið að undirbúa. Viðfangsefnin sneru öll að mismunandi samanburði á samfélaginu hvernig það var fyrir 100 árum og svo núna og eitt og annað á þessari áðurnefndri öld.

Skólar bæjarins unnu saman að uppsetningu á fullveldissýningu sem var í skólanum við Borgarbraut 1. des. Auk þess sem grunnskólanemendurnir sýndu sín verkefni voru einnig verk frá leikskólanemendum. Auk þess sáu nemendur við Tónlistarskóla Stykkishólms um tónlistaratriði í Amtsbókasafninu með reglulegu millibili á meðan að sýningin var opin sem var milli 11:00 – 14:00.

Nemendur 7. bekkjar voru með vöfflusölu til fjáröflunar vegna skíðaferðar sem farin verður seinna í vetur.

Það er óhætt að segja að aðsókn að sýningunni var góð og viljum við þakka fyrir komuna. Það er mikilvægt fyrir skólasamfélagið að finna jákvæðan áhuga á starfinu og viðbrögð við sýningunni.

Við viljum einnig þakka skólafólki úr leik- og tónlistarskóla Stykkishólms fyrir samstarfið.

Skólastjórnendur