Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Skotthúfan – Takk Aldís

Þjóðbúningahátíðin Skotthúfan var haldin í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla, Norska húsinu laugardaginn 8. júlí s.l. Að venju var fólki í þjóðbúningum boðið upp á kaffi og rjómapönnukökur í betri stofum Norska hússins, söngfuglar að sunnan fluttu þjóðlega tónlist fyrir gesti og svo var smellt í mynd fyrir utan Norska húsið.  Forsýning á kvikmynd Ásdísar Thoroddsen „Skjól og skart – handverk og saga íslensku búninganna.“ var í Eldfjallasafninu kl. 17.  Myndin var forsýnd á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði í vor og verður frumsýnd í Bíó Paradís í Reykjavík í haust. Myndin endurspeglar heim þjóðbúninganna og þeirra sem láta sig þá varða.

Þjóðbúningardagurinn var fyrst haldinn árið 2005 í Norska húsinu að frumkvæði Aldísar Sigurðardóttur þáverandi forstöðukonu Byggðasafnsins. Þá var haldinn svokallaður handverks- og búningadagur og lukkaðist dagurinn það vel að ákveðið var að halda hann árlega upp frá því. Þau 12 ár sem liðin eru hafa einnig verið haldin ýmis námskeið í tengslum við þjóðbúningagerð og fleiri og fleiri komið sér upp búningi.  Nú í sumar var t.a.m. Þjóðbúningafræðsla á vegum Norska hússins og Heimilisiðnaðarfélags Íslands sem heppnaðist mjög vel og komu margar konur þar og fræddust um ýmis atriði varðandi þjóðbúninga. Það er einnig ljóst að búningarnir eru uppspretta hugmynda listamanna, hönnuða og fræðasamfélagsins. Árið 2014 fékk þjóðbúningadagurinn heitið Skotthúfan og síðan þá bryddað upp á ýmsum nýjungum og fleiri dagskrárliðum í tenglsum við þjóðbúninga. Þess má geta að blásið verður til námskeiðs í haust í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands hér í Stykkishólmi, ef næg þátttaka fæst.

Við, sem höfum áhuga á þjóðbúningum, getum þakkað fyrir það frumkvæði sem Aldís sýndi með því að taka upp þennan sið í Norska húsinu.  Við minnumst Aldísar með hlýju í hjarta, en Aldís lést s.l. vor eftir mikil veikindi.

F.h. Undirbúningshóps Skotthúfunnar

Anna Melsteð