Snæfellsbær – Fjármál

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri

Ágætu íbúar.

Ég hef á undanförnum dögum fengið nokkrar fyrirspurnir um fjármál Snæfellsbæjar og fleiri þætti í rekstri bæjarfélagsins og tengist það m.a umræðu um sjómannaverkfallið og frétta um að Snæfellsbær eigi ekki fyrir launum um næstu mánaðarmót.

Í þessari grein ætla ég að fara aðeins yfir fjármálin hjá sveitar­félaginu.

Varðandi fjármálin er það að segja að Snæfellsbær stendur þar nokkuð vel og líklega er Snæfellsbær að komast í hóp þeirra sveitarfélaga sem skulda hvað minnst, eða um 80% af heildartekjum. Þannig hefur Snæfellsbær borgað niður skuldir jafnt og þétt ásamt því að hafa, á sama tíma, verið í frekar miklum fjárfestingum á ári hverju. Á liðnu ári voru t.d. engin ný langtímalán tekin og hefur það verið þannig nánast síðustu árin.

Snæfellsbær hefur í úttekt Vísbendingar nú í nokkur ár, verið eitt af 10 best reknu sveitarfélögum landsins, þó alltaf sé erfitt að meta slíka hluti að mínu mati.

Hins vegar er það þannig að Snæfellsbær hefur rekið þá fjármálastefnu að vera ekki með mjög mikið laust fé og í gegnum árin sloppið þannig við að borga vexti í formi langtímalána og þ.a.l. sparað tugi milljóna í vaxtagreiðslur. Vel getur verið að ekki sé rétt að vera svona knappur á laust fé, en um hver mánaðarmót erum við með um 100 – 120 milljónir af lausu fé á reikningum sveitarfélagsins, sem er um það bil sama upphæð og fer út úr kassanum í hverjum mánuði í formi launa, launatengdra gjalda, afborgana af lánum og greiðslum til lánadrottna.

Til að gefa nokkra mynd af þeim greiðslum sem Snæfellsbær þarf að standa straum af, þá eru afborganir og vextir af langtímalánum er um 160­ – 180 m.kr. á ári, og langtímaskuldir um áramótin 2016/2017 voru um 1.200 m.kr. Þessar afborganir hafa lækkað mjög síðustu árin og vonandi verður svo áfram.

Heildartekjur Snæfellsbæjar að meðtöldum stofnunum eru um 2,2 milljarðar króna á ári og um 83% fer í rekstur.

Launagreiðslur á ári eru rúmar 1.100 milljónir króna að meðtöldum launatengdum gjöldum.

Heildar rekstrarkostnaður grunn­skólans er um 550 m.kr. á ári, rekstrarkostnaður leikskóla á ári er 190 á ári, rekstrarkostnaður Jaðar er um 160 svo eitthvað sé talið upp.

Snæfellsbær styrkir fjöldann allan af félagasamtökum og nema þeir styrkir í ár um 35 m.kr.

Mikilvægt er að það komi fram að áhrif sjómannaverkfallsins eru töluverð á sjóðsstreymið hjá Snæ­fellsbæ enda veiðar og vinnsla stór þáttur í atvinnutekjum samfélagsins. Hins vegar er einnig mikilvægt að það komi fram að Snæfellsbær stendur vel og á því ekki í vandræðum að útvega sér fjármagn í þann tíma sem það tekur að vinna sig úr tíma­bundnum skertum tekjum.

Eins og allir skilja þá hefur það mikil áhrif ef útsvarstekjurnar minka um allt að 40% eins og við gerum ráð fyrir núna þegar stór hluti launþega í sveitarfélaginu er í verkfalli, en eins og áður segir þá er það tímabundið ástand sem að mestu mun skila sér til baka þegar verkfallið leysist.

Það er von mín að yfirferðin hér að ofan varpi örlitlu ljósi á fjárhagsstöðu Snæfellsbæjar.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri