Söluferli Hafnargötu 7

3Y6A4943Ég sé mig tilneydda til að senda frá mér skrif vegna sölunnar á Hafnargötu 7.
Langar mig sem eiganda Bókaverzlunar Breiðafjarðar að skýra aðeins frá málinu eins og það hefur snúið við mér sem bjóðanda í húsið.
Bæjarstjórinn talaði um ,,hagsmunagæslu“ í nýlegu viðtali, og vissulega eru margvíslegir hagsmunir í húfi í þessu máli. Þar á meðal hagsmunir míns fyrirtækis, Bókaverzlunar Breiðafjarðar.
Upphaflega bárust fjögur tilboð í húsið, og í fundargerðum bæjarráðs frá 22. jan. og bæjarstjórnar frá 29. jan. er engum tilboðum hafnað. Þar er bæjarstjóra falið að undirbúa viðræður við hæstbjóðanda og einnig að kallað verði eftir upplýsingum um áætlun um nýtingu húss og lóðar frá Bókaverslun Breiðafjarðar ehf. sem er með næst hæsta tilboð í Hafnargötu 7.
Eftir þessari samþykkt var aldrei farið hvað okkur varðaði. Ekkert samband var haft við okkur.
Síðar var öllum tilboðum í eignina hafnað. Eftir það fékk ég tölvupóst frá bæjarstjóra sem innihélt m.a. þennan texta hér að neðan:

,,Í ljósi framangreindrar bókunar og þess umboðs sem undirrituðum er veitt, var Gistiveri ehf. gefið tækifæri til þess að leggja fram annað tilboð í eignina í samræmi við ofangreinda bókun bæjarráðs. Tilboð skal hafa borist fyrir kl. 12.00 föstudaginn 13. febrúar n.k. í netfang undirritaðs.“

Þennan tölvupóst skildi ég þannig að bæjarstjóri væri í viðræðum við Gistiver ehf. sem átti hæsta boðið. Svaraði ég því með tölvupósti til bæjarstjóra að við værum tilbúin að koma með hærra tilboð og ítrekaði ósk okkar um viðræður. Áður hafði ég tvisvar sinnum óskað eftir viðræðum við bæjarstjóra með tölvupóstum en engar fékk ég viðræðurnar, aðeins tilvísanir í bókanir.
Svarið frá bæjarstjóra var, að við hefðum átt að skilja þennan texta hér að ofan þannig að Bókaverzlun Breiðafjarðar hefði haft sama frest og Gistiver til að senda inn tilboð fyrir fös. 13. febrúar.
Aðeins eitt tilboð barst og var það tilboð frá Marz ehf. Þarna er allt í einu kominn nýr aðili inn í tilboðsferlið.
Eðlilega undruðumst við nokkuð þessa málsmeðferð og kröfðumst þess að fá að hitta bæjarráð til að skýra frá okkar hlið mála.
Á það var fallist með íhlutun minnihlutans og fengum við hjónin að koma inn á bæjarráðsfund og leggja fram okkar athugasemdir. Þar lagði ég fram tölvupóstsamskipti mín við bæjarstjóra og alvarlegar athugasemdir vegna meðferðar málsins.
Niðurstaða bæjarráðs var að fela lögmanni Stykkishólmsbæjar, Pétri Kristinssyni, sem einnig er fasteignasali, sölu hússins.
Aldrei kom fram nokkur ósk um afhendingartíma, en nú vill bærinn fá að nota húsið sem lengst. Í okkar lokatilboði buðum við upp á bæði afhendingartíma eftir samkomulagi og viðræður um samstarf og /eða yfirtöku á rekstri bókasafnsins og jafnvel upplýsingamiðstöð, en það tilboð var ekki virt viðlits og hagkvæmni þess ekki skoðuð af KPMG eins og hin tilboðin sem voru alls fjögur. Eingöngu eru þó bókuð þrjú tilboð í fundargerð bæjarráðs. Hvergi er bókað tilboðið frá Marz um uppítöku á Trésmiðjunni gömlu. Munu kaup á henni etv. dúkka upp aftur þegar líður að afhendingartíma byggingarreitsins að Hafnargötu 7 til nýrra eigenda ?
Þá er tekin leiga inn í sem reiknast sem 1.500 kr. á fermetrann á mánuði. Ég hitti nýlega kaupmannshjón sem reka bæði verslun og heildsölu í Reykjavík og þau sögðust borga 1000 kr. á fermetrann á mánuði. Ef við lækkum leiguverðið í þá tölu, hvaða tilboð er þá hæst ?
Er þetta eðlileg stjórnsýsla og söluferli ?

Heiðrún Höskuldsdóttir verslunareigandi