Föstudagur , 16. nóvember 2018

Staða veiðieftirlitsmanns á starfsstöð Fiskistofu í Stykkishólmi

Fiskistofa óskar að ráða veiðieftirlitsmann á starfsstöð sína í Stykkishólmi.

Helstu verkefni:
Eftirlit á sjó. Eftirlit á sjó felst m.a. í lengdarmælingum á fiski og tillögugerð um lokanir veiðisvæða, eftirliti með aflasamsetningu, veiðarfærum, hlutfalli smáfisks í afla og brottkasti afla. Þá fylgjast veiðieftirlitsmenn einnig með því að afladagbækur séu rétt útfylltar og séu í samræmi við veiðar og afla um borð.
Eftirlit í landi. Eftirlitsstörf í landi fela m.a. í sér eftirlit með löndun, vigtun og skráningu afla, eftirlit með veiðarfærum og aflasamsetningu, lengdarmælingar á afla og eftirlit með færslu og skilum afladagbóka. Starfið felur einnig í sér skrifstofustörf s.s. skýrsluvinnu þegar vettvangsstörfum lýkur, að fylgjast með löndunum og skráningum í aflaskráningarkerfi Fiskistofu og öflun gagna vegna brotamála sem upp koma.

Hæfniskröfur:
Leitað er að kraftmiklum einstaklingi sem hefur reynslu af störfum í sjávarútvegi.
Góð íslensku- og tölvukunnátta er áskilin.
Sjálfstæði, fagmennska og nákvæmni í vinnubrögðum.
Góð færni í mannlegum samskiptum.

Skipstjórnarréttindi er kostur.
Um fullt starf er að ræða og er æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Nánari upplýsingar um starfið veita Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs í síma 569-7977 og Þórhallur Ottesen deildarstjóri veiðieftirlits í síma 569-7932. Umsóknir er hafa að geyma haldgóðar upplýsingar um menntun, fyrri störf, meðmælendur og annað sem máli kann að skipta sendist á netfangið ingath@fiskistofa.is eða með bréfi til Fiskistofu, Dalshrauni 1, 220 Hafnarfirði merktar „Veiðieftirlitsmaður Stykkishólmi“. Umsóknarfrestur er til og með 19. janúar 2015. Laun taka mið af kjarasamningi ríkisins við viðeigandi stéttarfélag. Samkvæmt jafnréttisstefnu Fiskistofu eru konur hvattar til að sækja um jafnt sem karlar.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Athygli er vakin á því að umsóknir munu gilda í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, með vísan til 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglu nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum, með síðari breytingum, sem settar eru samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.