Starf yngri flokka Snæfells í körfubolta

Dagana 4.-5. mars var Nettómótið haldið í Reykjanesbæ. Vel yfir 1.000 keppendur af öllu landinu mættu frá fjölmörgum liðum. Mótið er fyrir 1.-5.bekk og sendi Snæfell sex lið, eða um 30 keppendur. Spilað er 2×10 mínútur og engin stig talin.

Öll lið stóðu sig mjög vel og sjá mátti miklar framfarir hjá krökkunum. Það er mikil dagskrá alla helgina, m.a. er sundferð, bíóferð, hoppukastalar svo eitthvað sé nefnt. Á laugardagskvöldinu er heljarinnar kvöldvaka þar sem ýmsir skemmtikraftar koma fram. Á sunnudeginu er svo lokaathöfn þar sem öll liðin stilla sér upp og ganga inn í íþróttahúsið í Keflavík og fá allir keppendur verðlaunapening og körfubolta.

Þjálfarar þessara liða voru þau Árni Ásgeirsson og Andrea Björt Ólafsdóttir. Margir leikir eru spilaðir og sumir á sama tíma og geta aðalþjálfararnir ekki verið allsstaðar. Því er það þannig að foreldrar eru til aðstoðar og sjá um að stýra liðunum í nokkrum leikjum, því ber að fagna hve foreldrarnir tóku vel í þetta og er þeim þakkað innilega fyrir alla aðstoðina.

Helgina 11.-12. mars léku tveir flokkar frá Snæfell á Íslandsmóti.

8. flokkur stúlkna lék í Stykkishólmi í B-riðli. Léku þær við lið Vestra, KR og Stjörnuna. Leikirnir voru spennandi og mikil barátta var á milli liða. Því miður var þetta ekki helgin þeirra því þær máttu þola töp í öllum leikjunum. Þjálfari var Gunnhildur Gunnarsdóttir

8. flokkur drengja lék í Ásgarði, Garðabæ. Þarna var um að ræða B-riðil og var leikið við Stjörnuna b, Keflavík, Tindastól og Skallagrím. Allt hörkuleikir en naumt tap í fyrsta leik við lið Stjörnunar skar úr um það hvort liðið færi upp í A-riðil því Stjarnan vann alla sína leiki og fór upp um riðil. Þjálfari var Gísli Pálsson.

Að lokum langar mig að minna fólk á að nú styttist í að meistaraflokkur kvenna hefji leik í úrslitum Íslandsmóts. Hef ég enga trú á öðru en að stelpurnar skili þeim fjórða titli í röð hingað í Stykkishólm. Því vil ég hvetja alla bæjarbúa sem og brottflutta og aðra stuðningsmenn Snæfells um að koma á pallana og styðja stelpurnar til sigurs.

Áfram Snæfell

Fyrir hönd yngri flokka Snæfells

Jón Þór Eyþórsson