Starfsemi Umhverfishóps Stykkishólms

Nú hefur Umhverfishópur Stykkishólms verið starfræktur í tvö ár með góðum árangri en þegar þetta er skrifað eru skráðir félagar 58 talsins. Þar sem nýtt starfsár er að taka við finnst mér við hæfi að líta um öxl og gefa ykkur smá yfirlit um það sem fram hefur farið á vegum hópsins á nýliðnu starfsári.

Nú hefur Umhverfishópur Stykkishólms verið starfræktur í tvö ár með góðum árangri en þegar þetta er skrifað eru skráðir félagar 58 talsins. Þar sem nýtt starfsár er að taka við finnst mér við hæfi að líta um öxl og gefa ykkur smá yfirlit um það sem fram hefur farið á vegum hópsins á nýliðnu starfsári.
     Stjórn hópsins var ásamt undirritaðri skipuð þeim Lárusi Á. Hannessyni (varaformaður), Sigríði Elísabet Elisdóttur (gjaldkeri) og Róberti Arnari Stefánssyni (ritari), en stjórnin var öll endurkjörin á aðalfundinum nú í apríl. Í vetur var áhersla lögð á fræðslu og stóð hópurinn fyrir nokkrum áhugaverðum fyrirlestrum, öllum í samstarfi við Náttúru-stofu Vesturlands. Má nefna erindi þeirra Bryndísar Þórisdóttur um Vistvernd í verki, Ólafs Karls Nielsens um rjúpu, Menju von Schmalensee um lífrænt ræktaðar afurðir, Stefáns Gíslasonar um orkusparnað á heimilum og Daníels Bergmanns um garðfugla. Fyrir-lestrar voru yfirleitt mjög vel sóttir og mæting á bilinu 16 til 27 manns.
Tvær ferðir voru farnar á starfsárinu, annars vegar fuglaskoðunarferð um Snæfellsnes í samvinnu við Náttúrustofuna, en hins vegar vettvangsferð að virkjunarsvæði Múlavirkjunar. Báðar ferðir heppnuðust framar vonum og mun hópurinn tvímælalaust efna til fleiri slíkra ferða í framtíðinni.
     Umhverfishópurinn beitti sér einnig með pistlaskrifum fyrir því að fjölga safntunnum í bænum í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld og fyrir því að hér yrði komið af stað verkefninu „Vistvernd í verki“, sem þrjú stærstu sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru nú þátttakendur í.
     Flestir félagar hópsins eru á tölvupóstlista þar sem sendar eru út tilkynningar um áhugaverða viðburði og önnur mál tengd umhverfis-málum.  Meðal efnis sem dreift var á síðasta starfsári var hvatning til að skoða umhverfisvottunarleiðir stofnana og fyrirtækja, fróðleik um gróðurhúsaáhrif, árlegum lista Birdlife International um fugla í útrýmingarhættu, upplýsingum um tölvuleik um umhverfismál og skil á eggjabökkum svo eitthvað sé nefnt.
     Hópurinn er opinn öllum sem vilja láta sig umhverfið varða og ekki eru nein félagsgjöld.  Allir viðburðir á vegum hópsins hafa verið án endurgjalds og standa vonir til að svo geti verið áfram. Þeir sem hafa áhuga á að ganga í hópinn og/eða komast á útsendingarlistann geta haft samband við undirritaða á menja@nsv.is eða í síma 433 8121 og 898 6638 á Náttúrustofu Vesturlands.

                                                           Menja von Schmalensee,
                                                          formaður Umhverfishóps Stykkishólms