Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Starfsmenn Ásbyrgis gera sér glaðan dag


Loksins rann upp 11. nóv. bjartur og fagur. Starfsmenn Ásbyrgis höfðu beðið eftir þessum degi lengi. Ákveðið var að hittast við Bensó kl. 12 sumir voru fyrr á ferðinni en aðrir og búnir að hringja oft um morguninn til að tryggja rétta tímasetningu. Starfsmenn mættu kátir og hressir og verulega spenntir. Ekið var með fyllstu gætni í Grundarfjörð. Þar áttum við pantað námskeið hjá Togga listamanni í Tanga.

Við áttum aldeilis yndislegan dag gerðum flotta hluti og skerptum kærleikann. Toggi bauð upp á súkkulaði, smákökur og mandarínur ásamt jólatónlist og mikilli gleði. Sumir tóku meira að segja snúning. Þetta var í fimmta sinn sem við förum á námskeið hjá Togga, hann er svo sannalega vinur okkar með hjartað á réttum stað. En þetta var í fyrsta sinn sem við fórum í Tanga enda var Toggi að festa kaup á þessu húsnæði og hyggur á frekara námskeiðshald.
Já, við stefnum á að fara þangað aftur og aftur og njóta þess sem þessi skemmtilegi listamaður hefur upp á að bjóða. Hann er snillingur í mörgu og nær að laða fram það besta í hverjum og einum.
Í Grundarfirði skoðuðum við Kjörbúðina og Gallerý Krums. Þar er margt sem heillar og sumir skelltu sér á jólagjafir. Enduðum svo daginn á Láka í pizzuhlaðborði. Hress og kát gerðum við pizzunum góð skil.

Framundan er fyrirmyndardagurinn 24. nóv., haldin af Vinnumálastofnun.
Við í Ásbyrgi ætlum svo sannalega að taka þátt í honum og nýta okkur þau tækifæri sem þar bjóðast. Fyrirmyndardagurinn er haldinn til að gefa þeim sem eru með skerta starfsgetu tækifæri til að kynnast störfum á almennum vinnumarkaði sem hugsanlega leiða til vinnusamninga.

Laugardaginn 25. nóv. ætlum við að halda Jólamarkað í Setrinu. Þar verður margt skemmtilegt í boði og bara verðið eitt gleður. Vinir okkar í félagsstarfinu á Dvalarheimilinu verða þar líka á sama tíma með eitthvað spennandi.

Sjáumst kát og hress.

Hanna