Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Stefnumörkun í málefnum aldraðra

Í vetur hafa undirrituð starfað í nefnd á vegum Stykkishólmsbæjar um málefni eldri borgara.

Í vetur hafa undirrituð starfað í nefnd á vegum Stykkishólmsbæjar um málefni eldri borgara. Nefndinni var falið að leggja fram tillögur að stefnumótun í málaflokknum, að skoða félagslega þjónustu við aldraða í bænum, leggja mat á húsnæðisþörf og koma með tillögur um hvernig brugðist verði við henni.

     Þetta er viðamikið verkefni enda hefur vinna tekið lengri tíma en fyrirhugað var í fyrstu.  Nefndin kallaði til samráðs og ráðgjafar fulltrúa starfsfólks í öldrunarþjónustunni, bæði hjá bænum og heilsugæslu-stöðinni, og einnig fulltrúa frá Aftanskini.

     Ákveðið var að gera skoðanakönnun meðal íbúa 60 ára og eldri og var hún lögð fyrir um mánaðamótin janúar og febrúar. Könnunin var tvíþætt, annars vegar sneri hún að félagsstarfinu, bæði frjálsu félagastarfi, eins og starfi Aftanskins, og einnig því félags- og tómstundastarfi sem er á vegum bæjarins.  Hinn hluti könnunarinnar snerti húsnæðismálin. Í þeim hluta var leitast eftir að fá fram svör við fjórum atriðum fyrst og fremst: Hvenær fólk teldi líklegt að það þyrfti að skipta um húsnæði, hvort meiri áhugi væri á þjónustuíbúðum líkt og á Skólastíg eða félagslegum íbúðum með minni þjónustu. Einnig hvort fólk vildi heldur kaupa íbúðir á frjálsum markaði. Í þriðja lagi vildum við fá að vita hvaða skoðanir fólk hefði á staðsetningu íbúðanna og loks hvaða kröfur væru gerðar til þjónustu og húsgerðar.

     Ekki er hægt að fara hér yfir allar niðurstöðurnar úr könnuninni en ef skoðað er það helsta sem kom fram um húsnæðismálin má sjá að stór hluti íbúa 60 ára og eldri í Stykkishólmi hefur ekki hugsað sér að flytja úr núverandi húsnæði. Hinsvegar eru 33 heimili sem einhvern tíma á næstu árum hafa hugsað sér að flytja í nýtt húsnæði.

     Til að áætla þörfina fyrir nýjar íbúðir má segja að byggja þurfi 8 íbúðir á næstu 2-4 árum og samkvæmt niðurstöðum eru íbúðir á frjálsum markaði álitlegri kostur en félagslegar íbúðir líkt og nú eru á Skólastíg.

Varðandi staðsetningu þá er nálægð við verslun og aðra almenna þjónustu mikilvægasti kosturinn.

     Ef skoðuð eru svör um hvernig húsnæði eigi að byggja þá eru parhús og raðhús talin álitlegasti kosturinn og nauðsynlegt þykir að hafa aðgang að bílageymslu.

     Nefndin skilaði af sér skýrslu í gær og er hún lögð fram í bæjarráði í dag. Skýrslan er ítarleg, þar eru dregnar saman upplýsingar um stöðuna í málaflokknum og ýmsar ábendingar og hugmyndir settar fram um þjónustuna. Þá eru tillögur um húsnæðismálin lagðar fram þó það sé svo auðvitað bæjarstjórnar að taka ákvörðun um framhaldið.

Skýrslan verður aðgengileg á vef Stykkishólmsbæjar auk þess sem hún mun liggja frammi á bæjarskrifstofunni og Dvalarheimilinu. Stjórn Aftanskins og aðrir sem komu að starfi nefndarinnar fá einnig eintök þannig að auðvelt á að vera að nálgast skýrsluna.

     Nefndin vill þakka þeim sem tóku þátt í skoðanakönnuninni og einnig félögum í Aftanskini sem söfnuðu saman spurningalistunum. Sömuleiðis Vigdísi Gunnarsdóttur á Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga en hún vann úr niðurstöðum könnunarinnar. Öðru samstarfsfólki við þessa vinnu færum við okkar bestu þakkir.

     Það er ósk okkar að það efni sem hefur verið dregið saman í þessari skýrslu verði gott veganesti fyrir framboðin til sveitarstjórnar-kosninganna nú í vor og hún flýti fyrir og auðveldi ákvarðanatöku í þessum mikilvæga málaflokki.

 

                                                           Eyþór Benediktsson

                                                           Hanna Jónsdóttir

                                                           Katrín Pálsdóttir