Stelpurnar komnar heim

Um miðjan júlí fóru stelpurnar í 4.fl Snæfellsnes til Gautaborgar á Gothia Cup, alþjóðlegt fótboltamót, þar sem saman komnir eru keppendur frá mörgum löndum. Söfnun fyrir ferðinni hefur verið í gangi frá því í fyrra haust og gekk vel. 

Um miðjan júlí fóru stelpurnar í 4.fl Snæfellsnes til Gautaborgar á Gothia Cup, alþjóðlegt fótboltamót, þar sem saman komnir eru keppendur frá mörgum löndum. Söfnun fyrir ferðinni hefur verið í gangi frá því í fyrra haust og gekk vel. 

Stelpurnar hittust á flugstöðinni í Keflavík kl. 21 föstudagskvöldið 12. júlí og var mikil spenna í hópnum og voru allir ósofnir þegar komið var á gististaðinn í Gautaborg um 7:30 á laugardagsmorgun. Þegar komið var í skólann þar sem við gistum kom í ljós að dýnurnar sem við áttum að sofa á voru ekki komnar. Stelpurnar lögðust því til hvílu á bert gólfið, á nærliggjandi borð og einhverjar settu tvo stóla saman og lágu á þeim. Þær náðu nú allar að sofna eitthvað en það voru ekki allir fararstjórarnir sem náðu kríu. Um hádegi var haldið í miðbæinn og kíkt í nokkrar búðir. Á sunnudeginum var lagt upp í langferð yfir til Vaxjo en þar var íslenska kvennalandsliðið að spila við Þýskaland á EM 2013. Við hittum íslendingana á svokölluðu Fan Zone svæði og gengum í skrúðgöngu á völlinn og sáu stelpurnar okkar um sönginn á leiðinni og voru nokkrar orðnar hásar áður en komið var á völlinn. Við vöktum mikla eftirtekt og fóru stelpurnar í viðtöl við fótbolta.net, RUV og UEFA. Leikurinn var frábær þó svo að Ísland hafi tapað. Stelpurnar hittu svo nokkrar landsliðskonur eftir leikinn. Þegar mánudagurinn rann upp var komið að aðalmálinu í þessari ferð: Mótinu sjálfu. Við vorum með 25 stelpur og tvö lið í keppninni. Lið G 14 byrjaði á því að spila við sterkt lið frá Svíþjóð og töpuðum við þeim leik þrátt fyrir mikla baráttu okkar stúlkna. Lið G 13 spilaði svo seinnipartinn og vann sinn leik 3-0. Opnunarhátið mótsins var svo á mánudagskvöldið og mættum við þar í okkar fínasta pússi. Við fengum að sitja niðri á vellinum sjálfum og þvílík upplifun okkur leið eins og við værum að keppa á Ólympíuleikunum. Eftir opnunina ætluðum við aldrei að ná okkar keppendum út því „allir“ hinir keppnendurnir vildu fá mynd af sér með liði Snæfellsnes enda vorum við ekkert smá flott. Þriðjudagsleikirnir fóru þannig að G 14 tapaði með einu marki á síðustu mínútum leiksins. G 13 gerði 1-1 jafntefli í sínum leik. Á miðvikudag voru síðustu leikir riðlakeppninnar og tapaði G 14 sínum leik og var því ljóst að þær færu í 16 leikja B úrslit. Lið G 13 dugði jafntefli til að komast í A úrslit og endaði hörkuleikur þeirra við lið frá Karlskrona 0-0 og þær komnar í 8 leikja A úrslit. Við hefðum nú viljað vinna þann leik því við áttum endalaus marktækifæri en inn vildi boltinn ekki. Við skelltum okkur svo í Liseberg um kvöldið og fannst stúlkunum það ekki leiðinlegt.  Þrátt fyrir mikla baráttu náði hvorugt lið okkar að vinna sína leiki á fimmtudeginum og luku því keppni þá. Við vorum mjög ánægð með spilamennsku stelpnana á mótinu og höfum sennilega aldrei séð eins mikla baráttu hjá þeim. Nokkrar þurftu að spila með báðum liðunum og voru því orðnar frekar þreyttar enda búnar að spila tvöfalt mót. Við áttum frí á föstudeginum og fórum því til Kasjön að slappa af en þar var lítil strönd og stökkpallar. Ekki þorðu nú allar að stökkva í vatnið en þær notuðu þá bara tímann til að sóla sig. Frábær ferð að baki og  viljum við fararstjórarnir þakka stelpunum fyrir frábæra viku, foreldrum fyrir vinnu við fjáröflun, íbúum og fyrirtækjum á Snæfellsnesi og nágrenni þökkum við kærlega fyrir stuðninginn. Já og við eigum enn til saltfisk!

Fararstjórar