Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Strandhreinsiverkefni á Snæfellsnesi 6. maí 2017

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes og Umhverfisvottun Snæfellsness þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Norræna strandhreinsunardeginum s.l. laugardag.

Mörg tonn af rusli, að mestu leyti plast, voru hreinsuð skipulega af þremur strandsvæðum og að auki voru víða minni hreinsanir. Landeigendur tóku til hendinni, ferðaþjónustufyrirtæki, eyjar voru hreinsaðar, kafað var í höfnina í Stykkishólmi og áfram má telja.

Lionsklúbbur Nesþinga, Lionsklúbbur Ólafsvíkur, starfsmenn umhverfisstofnunar og norrænu sendiráðanna ásamt öðrum sjálfboðaliðum fóru hamförum á ströndinni við Bervík. Umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir var í fjörunni við Skógarnes ásamt stórum hópi heimamanna og annarra sjálfboðaliða. Þar var lengsta strandsvæðið. Hörkuduglegt lið Snæfellinga fór fremst í flokki við Hofgarða.

Veðrið lék við þátttakendur og í lokin var blásið til snæfellskrar veislu á Breiðabliki þar sem yfir 200 manns komu saman. Meiri upplýsingar um verkefnið koma síðar en ruslið verður greint og því komið til endurvinnslu eins og hægt er. Þar sem þetta er samvinnuverkefni verður fljótlega hægt að lesa um það hvað fannst hvar og sjá samanburð við strandsvæði á hinum Norðurlöndunum sem voru hreinsuð eftir sömu hugmyndafræði á sama tíma. Markmið verkefnisins var að vekja athygli á viðfangsefninu plast í hafinu og mögulegum aðgerðum til úrbóta. Við þurfum að endurskoða neyslu, flokka og skila rusli og hreinsa gamlar syndir.

Snæfellsnes var í fararbroddi vegna þess að hér er unnið gott starf í umhverfismálum og menn hafa komið sér upp samstarfsfarvegi. Nú höldum við ótrauð áfram að hreinsa strendur og koma í veg fyrir að plast endi í hafinu.

Margir lögðu hönd á plóg og viljum við sérstaklega þakka samstarfsaðilunum Landvernd, Bláa hernum og Lionshreyfingunni á Íslandi. Heimamönnum í Skógarnesi, Hofgörðum, þjóðgarðinum Snæfellsjökli og sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi.

Fyrir ógleymanlega snæfellska veislu fyrir svanga sjálfboðaliða:

 • Bakaríinu Stykkishólmi
 • Bjargarsteini
 • Búnaðarfélagi Staðarsveitar
 • Fiskmarkaði Íslands
 • Go West
 • Hafdísi Ásgeirsdóttir
 • Hótel Egilssen
 • Hótel Rjúkanda
 • Kaffi Prímus
 • KG fiskverkun
 • Langaholti
 • Láki Tours
 • Narfeyrarstofu
 • Ræktunarstöðinni Lágafelli
 • Samkomuhúsinu Arnarstapa
 • Sjávarpakkhúsinu
 • Sölufélagi garðyrkjumanna

Fyrir andlegt fóður:

 • Frystiklefanum Rifi
 • Margréti Gísladóttir
 • Reykjavík Excursions/Kynnisferðum ehf fyrir að ferja sjálfboðaliða til og frá
 • Gámaþjónustu Vesturlands fyrir gáma og að koma því sem safnaðist í réttan endurvinnslufarveg.
 • Odda, Saltkaup, Ikea og Kaffitár fyrir endurnýtanlega poka.

Fyrir strandhreinsiverkefni með Grunnskóla Snæfellsbæjar:

 • Hótel Búðir
 • Soroptimistaklúbbur Snæfellsness

F.h. verkefnisins, Ragnhildur Sigurðardóttir og Birna Heide Reynisdóttir