Stykkishólms-Pósturinn má ekki leggja árar í bát

Það er mér ljúft og skylt að verða við beiðni Önnu Melsteð um að setja nokkur orð á blað í Stykkishólms-Póstinum. Þó fylgdi með í hennar skeyti að gæti þetta orðið síðasta útgáfa okkar ágæta   bæjarblaðs og þá varð mér um og ó! Eru netmiðlar að yfirtaka bréfmiðla, kannski Facebook? Ef eitthvað hefur reynst vel, eins og okkar ágæta  bæjarblað hefur gert, er erfitt að sjá á eftir því úr tilverunni. Vettvangur bæjarmiðils þar sem fréttir, auglýsingar, mataruppskriftir, pistlar og bæjarsálin hefur pláss að ógleymdum lista- og menningarmálum sem oft og iðulega eru gerð góð skil í blaðinu og gerir samfélag eins og Stykkishólm að fjölskyldu, sem hittist einu sinni í viku og fer yfir málin.

Til þess að verða ekki of ,,dramatískur“ langar mig að láta hugann reika aftur í tímann.

Talandi um pistla á ég þessu blaði margt að þakka í minningunni. Á fyrstu árum blaðsins sem kom fyrst út árið 1994 átti ég nokkra pistla og um skeið nokkuð regluleg skrif. Það sem stendur upp úr í mínum huga hvað sjálfan mig varðar er að oft vissi maður ekkert efni næsta pistils og skilafrestur var eftir nokkrar klukkustundir. Sat fyrir framan lyklaborðið í þungum þönkum sem gátu verið þess eðlis að ef sá þankagangur kæmist á blað yrði ég ekki beðinn um frekari skrif. Slæm veðurspá, ógreiddir reikningar, ruglaðir stjórnmálamenn nú eða óútskýrð sjálfsvorkunn er alveg nægt fóður í ritstíflu eða skrif sem mér sjálfum leiðist að lesa eftir aðra, hvað þá sjálfan mig. Lífið er miklu dýrmætara en slæm veðurspá, ógreiddir reikningar ruglaðir stjórnmálamenn nú eða óútskýrð sjálfsvorkunn, þó maður verði að tækla þá staðreynd sem því fylgir á þeim vettvangi þar sem það á við. Í þessu ásigkomulagi byrjaði ég marga pistla mína og viti menn útkoman varð oftar en ekki sjálfum mér undrunarefni og sönnun þess að gott er að leiða hugann að einhverju jákvæðu þegar neikvæðnin ætlar að taka völdin, það er að sjálfsögðu ýmsar leiðir í því.  Þó ég sé í dag kjörinn stjórnmálamaður og oftar en ekki frekar ruglaður, er þessi reynsla mín af pistlaskrifum meðal annars, sönnun þess í  mínum huga að líðan augnabliksins er oft bara líðan augnabliksins. Þetta gæti kallast í dag hugræn atferlismeðferð í gegnum lyklaborðið.

Eftir viku gengur í garð hátíð ljós og friðar og friður er eitthvað sem allir vilja, sérstaklega eftir ófrið sem nóg er af. Á þeim vinnustað sem undirritaður starfar á nú um stundir er manngerður ófriður ætíð í boði, misjafnlega málefnalegur. Við sjóinn sem hefur verið minn starfsvettvangur lengst af er stundum ófriður, oftast af náttúrulegum orsökum sem með auðmýkt og æðruleysi er hægt að mæta vegna þeirrar staðreyndar að náttúruöflunum er stjórnað af einhverju sem er ofar mínum skilningi, reyndar á það skilningsleysi oft við í mannlegum samskiptum.  Í aðstæðum sem lífið býður manni uppá hefur bæn ein reynst mér vel í mínum vanmætti í leit að sálarfrið og hugaró. Þessa bæn þekkja margir „Guð gefi mér æðruleysi: til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.“ Bænin er þrjú erindi en þetta er fyrsta erindið og er þekktast.                                                                 

Ég þakka þeim hjónum Önnu Melsteð og Sigurði Bjarnasyni fyrir að hafa staðið vaktina í þessu, oft á tíðum óeigingjarna starfi með Stykkishólms-Póstinum í tólf ár. Eins þeim sem sáu um útgáfuna þar á undan og þeim sem ýttu fleyinu á flot árið að mig minnir 1994.  Ég biðla til þeirra sem vilja, geta og nenna að taka við keflinu. Stykkishólms-Pósturinn má ekki leggja árar í bát.

Kæru Hólmarar og allir sem þetta lesa: Gleðileg Jól og farsælt nýtt ár. Gerum nýtt ár að nýju upphafi Stykkishólms-Póstsins sem að mínu viti hefur verið einn af þeim þáttum, sem gerir okkar góða og fallega bæ enn betri og hefur verið einn af þeim þáttum að standa vaktina í uppbyggingu samfélagsins síðustu 24 ár. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.                                 

Þetta síðastnefnda var kannski of mikið drama.                      

Jólakveðja, Siggi Palli, Hólmari