Sumarlestur

Grunnskóli Snæfellsbæjar og Bókasafn Snæfellsbæjar hvetja grunnskólabörn í Snæfellsbæ til að lesa í sumar og foreldrana til að lesa með þeim. Átakið hófst 4. júní á mánudegi og stendur til 24. ágúst 2018. Áherslan er á að lesa sér til ánægju en í leiðinni að efla lestur barna yfir sumarmánuðina. Reynsla kennara sýnir að mikilvægt er að nemendur viðhaldi lestrarfærninni í sumarfríinu.
Lestur er eins og íþróttir um leið og markvissri iðkun er hætt minnkar liðleikinn, hraðinn og sjálfvirknin. Í byrjun nýs skólaárs tekur langan tíma að ná fyrri leshraða. Það getur jafnvel tekið nemendur sem eru með lestrarerfiðleika tvo til þrjá mánuði að ná upp fyrri getu ef þeir hafa ekkert æft sig í sumarfríinu.
Lesskilningur er meginmarkmiðið er grein sem Rannveig Lund og Guðlaug Einarsdóttir, sérkennarar í Flataskóla skrifuðu í Skólavörðuna (2. tbl. 10. árg. mars 2010). Þar kemur m.a. fram að ekki séu kennarar sammála um hvort börn eigi að þjálfa sig í lestri í skólaleyfum eða eiga frí frá því. Í rannsókn þeirra kom fram að afturför varð hjá 13 af 18 nemendum fjórða bekkjar í Flataskóla. Út frá þessum upplýsingum er dregin sú ályktun að upplýsa eigi foreldra um hættu á afturför í lestri ef ónóg eða engin þjálfun á sér stað yfir langt tímabil á þessu stigi lestrarþróunar og er það gert hér með. Reynsla kennara við skólann okkar er í samræmi við reynslu sérkennara Flataskóla.

Hilmar Már Arason
Skólastjóri