Sumarsýning Leir7 2015 Snúningur – Núningur

Á laugardag þann 16. mai kl.15 opnar sýning sumarsins í Leir7 í Stykkishólmi.
Sýningin nefnist Snúningur- Núningur. Átta listamenn sem aðallega fást við málverk í sinni myndlist sýna hér myndir af keramiki. Hver og einn hefur valið einn keramikhlut sem fyrirmynd og túlkar hann hann á sinn veg. Forvitnilegt er að skoða hvernig listamennirnir nálgast bilið á milli tvívíddar og þrívíddar, hvernig hið jarðbundna keramik fer á flug í málverkinu eftir sýn hvers og eins.
Helgi Þorgils Friðjónsson er sýningastjóri og verður einnig með verk á sýningunni hann hefur valið og boðið til þátttöku fjölbreyttum hópi myndlistamanna en auk hans er þau, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Valgerður Guðlaugsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Lisa Milroy, Helgi Már Kristinsson, Birgir Snæbjörn Birgisson, Guðjón Ketilsson.
Í hugleiðingum Helga Þorgils um sýninguna segir meðal annars.
„Ég velti fyrir mér persónulegri frásögn eða sögulegri, og þar með hugmyndinni um hringrásina og snúninginn. Hvernig snúningurinn dregur upp formið og hvernig rásirnar í bollanum eða krúsinni draga mann inn í djúpið. Það er eins konar líflína handar og krúsar. Hugmyndin um það hvernig formið verður til og hvernig það er handleikið og notað verður líka til með notandanum. Allt þetta er dregið saman í tvívíða mynd. Þannig valdist þessi hópur listamanna saman”
Sumarsýning Leir7 stendur fram í september. Þetta er fjórða sumarið sem efnt er til sýninga, en þær hafa verið afar fjölbreyttar og flestar snúist um keramik eða önnur efni sem sýnendur hafa unnið með eigin höndum með aðferðum sem þeim er tamt að vinna með.
Opið er í Leir7 alla virka daga milli kl. 14 og 17, laugardaga frá kl. 14-16.
Velkomið er að líta inn á öðrum tíma eða þegar einhver er á verkstæðinu
Sigríður Erla Guðmundsdóttir