Sumarsýningar Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla í Norska húsinu

Laugardaginn 10. júní kl. 15:00 opnuðu sumarsýningar Norska hússins – BSH.

Að þessu sinni eru tvær sýningar, myndlistarsýning eftir Ernu Guðmarsdóttur, Fuglar og Fantasíur og ljósmyndasýning eftir Hjördísi Eyþórsdóttur, Snæfellsnes // 中國 .

Erna Guðmarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1940 og stundaði fyrst listnám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og lauk svo prófi með kennsluréttindum frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Erna hefur mikla tengingu við Stykkishólm og á hún hús hér ásamt eiginmanni sínum Steinþóri Sigurðssyni.

Sýningin Fuglar og fantasíur sýnir nýjustu verk Ernu þar sem efniviðurinn er sóttur í margbreytilegan og litríkan heim fuglanna. Fuglar Ernu eru ýmist af tegundum sem við þekkjum vel eins og hrafnar, lóur, gæsir og tjaldar en sjálf hefur listakonan farið á hugarflug og skapað nýjar tegundir sem mæla sér mót við kirkjuglugga eða eiga fagnaðarfund á grein.

Hjördís Eyþórsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1991. Hún hefur undanfarin tvö ár verið búsett í Stykkishólmi.

Sýningin Snæfellsnes // 中國 er fyrsta sýning Hjördísar. Hún hóf að taka ljósmyndir árið 2016 og hefur lengi haft mikinn áhuga á ljósmyndun. Hún tekur oftast ljósmyndir af nærumhverfi sínu sem er Snæfellsnes. Í janúar síðastliðinn fór hún til Kína og dvaldi þar í sex vikur, ferðaðist og ljósmyndaði það sem fyrir augu bar. Ljósmyndirnar á sýningunni eru teknar á árunum 2016 og 2017.

Sýningarnar standa til 31. ágúst 2017.