Súvíðsbenni

Bjössi

Ég vil byrja á að þakka minni góðu vinkonu og bekkjarsystur Elínu Freyju fyrir áskorunina.  Maður segir ekki nei við Freyjuna. Hef aldrei gert og mun aldrei gera. Það er bara þannig.  Já en hvað skal elda? Helst vildi ég nú sýna ykkur hvernig að grilla eigi bjór þannig að vel sé, en það er flókið verkefni og ítarlegt sem ég næ trauðla að fara yfir í stuttum pistli. Spurning hvort ég hendi ekki bara upp námskeiði um Dönzku Dagana þar sem farið verður yfir málið með þeim veglega hætti sem viðfangsefnið verðskuldar.

Anyhow.. Seint á síðasta ári braut ég internetið þegar ég henti inn á nördasíðu „súvíðara“ hvernig gera mætti geggjaða alvöru bernaise sósu og það með því að „súvíða“ kvikindið. Nú eru náttúrulega flestir Hólmarar komnir með a.m.k. eitt stykki sous vide tæki í geymsluna og telja sig vera orðna færa í flestan sjó þegar kemur að slíkri eldamennsku. Ég hvet sem flesta til þess að prófa hinn magnaða súvíðbenna við fyrsta tækifæri, því eins og allir vita þá er bernaise sósa góð með öllu…nema kannski poppi..og þó.

Anyhow…þá er þetta ekki flókin eldamennska. Öllu hráefni er hent í nettan ziplock poka og er hráefnið eftirfarandi. 300gr smjör í klumpum, óþarfi að vera eitthvað að eyða tíma að bræða það niður, bara beint úr ískáp og í pokann. Svo fylgja 10 eggjarauður í kjölfarið og rétt rúmlega matskeið af essens…sem er víst alveg „essential“. Ekki má gleyma estragoninu..alveg 2msk af því, það hefur nefninlega svo góð áhrif á kynhormónið estrógen sem allir vilja hafa í toppmálum. Svo verður víst að hafa smá vatn í pokanum eða ca.163ml og síðast en ekki síst, rúsínan í pylsuendanum, töfratrixið sjálft…ein matskeið af eðaldijon sinnepi. Pokanum er svo lokað og honum skellt í súvíið í hálftíma við hitastigið 72 gráður. Tilvalið er að nota þennan hálftíma til þess að skreppa upp á Bensó og heilsa upp á musterisriddarana sem þar sitja á spjalli, já og kannski bara lotta í leiðinni ef sá gállinn er á manni. Nú svo er bara að hella öllu gumsinu í skál og hræra síðan nett í því með tæki sem töfrasproti sem heitir. Voila! Þá er kominn geggjaður benni og svo er bara að setja salt og pipar + sykur eftir smekk, því jú misjafn er mannanna smekkur.

Nú ef svo vilji er til þess að hafa eitthvað kétmeti með sósunni og jafnvel að „súvíða“ það líka þá mæli með vel nudduðu og nettu nautafillet í 90 mínútur á 56 gráðunum. Skella því svo á funheitt grillið til þess eingöngu að fá á það ríkulegar rendur og laglega lokun. Ekki reyna að henda bjórnum á grillið með þessu…nema þá að hafa farið á námskeiðið hjá mér í þeim fræðum.

Ég vil svo skora á þorparann í þorpinu, engan annan en þúsundþjalasmiðinn og gourmet kokkinn….Badda Lofts að taka við uppskriftarpennanum og færa okkur einhverja schnilldina sem ekki verður toppuð.

Góða og gleðilega skemmtun  um Danska Daga!


Bestu þakkir
Bjössi