Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Svar til Gunnlaugs

Sæll Gunnlaugur

Þú fjallar í síðasta Stykkishólmspósti um persónukjör.  Það hefur legið fyrir, að sjálfsögðu, að ekki verði persónukjör nema engir listar bjóði fram.  Þann jarðveg höfum við verið að kanna en því miður er ekki vilji til að fara þessa leið sem að mínu mati hefði verið samfélaginu til góða.  Allar leiðir sem eru farnar hafa kosti og galla.  Í þeim sveitarfélögum sem hafa notast við persónukjör hefur sá hátturinn verið hafður á að þeir sem  áhuga hafa á að starfa í bæjarstjórn láta vita af því. Nöfn þeirra hafa verið birt ýmist í staðarblöðum eða heimasíðu sveitarfélaganna en að sjálfsögðu eru allir í kjöri.  Kjósandinn hefur kost á að skrifa nafn sjö aðalmanna og sjö varamanna en má ekki skrifa fleiri nöfn þá verður seðillinn ógildur.  Kjósandinn má hinsvegar skrifa færri nöfn og er það algengt að  kjósendur skrifi sjö nöfn aðalmanna en er þó allur gangur á því.  Flestir kjósendur koma með nafnalistann að heiman sem þeir hafða ákveðið og notast við sem forskrift og eru því fljótir að kjósa.  Ég heyrði einmitt sérkennileg rök gegn persónukjöri að það væri svo óskaplega flókið að kjósa eftir þessu kerfi þar sem skrifa þyrfti 14 nöfn á listann. Eins og áður hefur komið fram þarf svo ekki að vera og einnig hitt að á sama tíma og við fárumst yfir slægri frammistöðu ungs fólks í lestri er það notað sem rök að það sé flókið og erfitt fyrir okkur sem viljum telja okkur fullorðin að skrifa nokkur mannanöfn á pappír sem við getum haft forskrifað fyrir framan okkur.  Önnur rök sem heyrst hafa eru að þetta sé erfitt í svo fjölmennu samfélagi sem Stykkishólmur er. Sveitarfélög með 600- 700 íbúa hafa notast við þessa aðferð og er persónukjör algeng aðferð víða um heim í margfalt stærri samfélögum en Stykkishólmur er.  Þetta er nú ekki flóknara en það að talningu var lokið í Dalabyggð kl. 01:20 eftir síðustu kosningar en þar búa um 700 manns. Þú notar sem rök Gunnlaugur að að baki listanna liggi stefna og bakland og kjósendur viti nákvæmlega hvað þeir eru að kjósa. Það er nefnilega nákvæmlega engin trygging fyrir því og er að mínu mati veikasti hlekkur listakosninga. Framboð kasta oft fram stefnum og loforðum mjög óábyrgt til að ná eyrum kjósenda. Tökum eitt stórt og nærtækt dæmi. Fyrir síðustu kosningar kastaði H-listinn, sem þú þekkir nú betur til en ég, fram því loforði að byggður yrði tónlistarskóli ef þeir hlytu kosningu. Hvað fjármögnun varðaði yrði horft útfyrir boxið. Ég sem bæjarfulltrúi til átta ára klóraði mér í hausnum og óskaði þess að ég ætti svona galdra „box“ til að horfa útfyrir til að búa til peninga.  Hver var svo niðurstaðan Gunnlaugur? Jú í stað tónlistarskóla reis bókasafn og þetta út fyrir „boxið“ var eins mikið inní boxinu og hugsast getur þegar kom að fjármögnun nefnilega lántökur á lántökur ofan auk sölu eigna. Kostnaður við bygginguna er  kominn í 300 milljónir og er eftir að ganga frá skólalóðinni en kostnaðaráætlunin hljóðar uppá rúmlega 100 milljónir.  Allt þetta var gert án umræðu í bæjarstjórn þar sem H-listinn þinn hafði meirihluta og þurfti ekki að sannfæra einn né neinn of okkur bæjarfulltrúum minnihlutans um ágæti gjörningsins heldur einungis þruma þessu í gegn. Það er er ég fullviss um Gunnlaugur að ef sjö bæjarfulltrúar sem kosnir hefðu verið í persónukjöri hefðu sest niður og metið rekstrarstöðu bæjarins, forgangsröðun, verkefnastöðu iðnaðarmanna og þarfir að þá hefði umræðan um hvort fara ætti í þetta verkefni ekki staðið lengi. Hún hefði verið slegin útaf borðinu strax enda galin hugmynd sem við bæjarbúar eigum eftir að súpa seyðið af á næstu árum.

En við eigum að gera meira en að auka lýðræðið með því að sameinast um persónukjör. Við eigum að t.d. taka upp bæjarstjórnarfundi, opna bókhaldið, skipta starfseminni uppí þrjú svið, vera meira í sambandi við bæjarbúa o.fl.. Hlutverk bæjarstjórnar er fyrst og fremst að ná fram eins góðri þjónustu og kostur er miðað við möguleikana hverju sinni og það gerum við best með því að kjósa persónukjöri einstaklinga sem ekki er stillt upp sem bæjarfulltrúum af t.d. „uppstillingarnefndum“ heldur kosnir sem einstaklingar frjálsir frá hagsmunahópum og baklandið eru allir bæjarbúar.

Lárus Ástmar Hannesson oddviti L-listans