Svar við spurningu Rakelar Olsen

Í síðasta Stykkishólmspósti óskaði Rakel Olsen eftir upplýsingum um samning vegna fyrirhugaðs Vatnasafns.

Í síðasta Stykkishólmspósti óskaði Rakel Olsen eftir upplýsingum um samning vegna fyrirhugaðs Vatnasafns.  Fyrir liggja drög að samningi á milli menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, Artangel, Roni Horn og Stykkishólmsbæjar um innsetningu og rekstur Vatnasafns í núverandi húsnæði bókasafnsins.

   Samkvæmt drögunum er framlag menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, Artangel og Roni Horn til Vatnasafnsins áætlað um 65-70 millj. króna.  Þessi fjárhæð innifelur m.a. viðgerðir á húsinu, rithöfundaríbúð í kjallara þess og styrkveitingar til þeirra höfunda sem í íbúðinni dvelja við ritstörf, innsetningu Vatnasafnsins, listaverkin sem prýða munu safnið og markaðsetningu safnsins.  Samkvæmt samn-ingsdrögunum er gert ráð fyrir því að Stykkishólmsbær annist rekstur safnsins og er sá kostnaður áætlaður um 1,5 – 2 millj. kr. á ári.  Í drögunum er gert ráð fyrir því að ríkið kaupi hluta hússins og fara þeir fjármunir m.a. til kaupa á nýjum búnaði fyrir bókasafnið sem verulega er kominn til ára sinna.  Að samningstíma liðnum sem áætlaður er 25 ár er gert ráð fyrir því að Stykkishólmsbær verði aftur orðinn einn eigandi hússins.  Rétt er að ítreka að hér er verið að fjalla um drög að samningi þar sem hann hefur ekki verið undirritaður af samningsaðilum.

Stykkishólmi 21. mars 2006

                                                                                 Erla Friðriksdóttir

                                                                                 bæjarstjóri