Svefnrannsókn í FSN

Dagana 12. til 22. nóvember 2018 fór fram svefnrannsókn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Rannsóknin var hönnuð af kennurum skólans í samráði við nemendur og var hún hluti af lokaverkefnum í fimm mismunandi áföngum á öllum hæfniþrepum. Áfangarnir voru tölfræði, aðferðafræði, inngangur að náttúruvísindum, íslenska og enska. Alls tóku 68 ungmenni á aldrinum 15 til 23ja ára þátt í könnuninni en meðalaldurinn var 17,2 ár. Stelpur voru 39 talsins (57%) en strákar 29 (43%). Tilgangur könnunarinnar var að athuga hvort nemendur við skólann glímdu við alvarlegan svefnskort og hvort hægt væri að tengja það við neyslu orkudrykkja og notkun farsíma. Svefnmynstur þátttakanda var skráð í 10 daga og að því loknu fóru nemendur í þrjú stutt próf. Tvö þeirra voru viðbragðspróf og hið þriðja til að prófa skammtímaminni.

Í könnuninni skráðu nemendur niður daglega hvenær þeir fóru að sofa, hvenær þeir vöknuðu, hvenær þeir mættu í skólann, hversu þreyttir þeir voru á skalanum 1-5 þegar þeir mættu í skólann, hversu marga kaffibolla eða orkudrykki þeir drukku yfir daginn, hvort þeir hefðu borðað morgunmat, hvort þeir hefðu farið í símann eftir að komið var upp í rúm, hvort þeir svæfu með símann við rúmið og að lokum hversu lengi, ef eitthvað, þeir hefðu lagt sig yfir daginn. Nemendur í áföngunum fimm unnu svo úr niðurstöðum rannsóknarinnar.

Í ljós kom að meðalsvefntími þátttakenda á hverri nóttu var 8,39 klst., en ráðlagt er fyrir unglinga að sofa í 8-9 tíma á hverri nóttu. 28% nemenda lögðu sig yfir daginn – í 22 mínútur að meðaltali, og 78% nemenda neyttu orkudrykkja á þessum 10 dögum.

Í skammtímaminnisprófinu að könnuninni lokinni voru nemendum gefnar 30 sekúndur til að leggja á minnið 12 orð og svo áttu þeir að telja upp eins mörg þeirra og þeir gætu. Að meðaltali náðu þátttakendur að telja upp 7,66 orð af þessum 12, sem er ágætur árangur. Viðbragðsprófin tvö fóru bæði fram í tölvu. Annað snerist um að smella með mús eftir að litur skjásins breyttist og gera það fimm sinnum. Meðalviðbragðstími úr því prófi var 315 ms. Hitt prófið snerist um að færa mús yfir á lítinn kassa og smella á hann eins oft og þú gast á einni mínútu. Meðalstigafjöldi úr þessu prófi var 44,4.

Niðurstöður prófanna sýndu að þeir sem höfðu sofið lítið höfðu skjótari viðbrögð en stóðu sig verr í minnisprófunum en þeir sem höfðu fengið meiri svefn. Fylgni meðalsvefns í tíu daga og viðbragðsprófa var -0,08 en -0,05 í minnisprófum. Fylgni milli símanotkunar og svefnlengdar var -0,16. Þetta segir okkur að eftir því sem nemendur voru meira í símanum, því minni svefn fengu þeir og voru þar af leiðandi þreyttari í skólanum.

Könnunin leiddi einnig í ljós að 88% þátttakenda voru í símanum eftir að þeir fóru upp í rúm og 89% sváfu með símann við rúmið sitt.

Lokaverkefni í Fjölbrautaskólanum eru vanalega ekki með þessum hætti, þar sem nemendur úr fimm áföngum unnu að einu sameiginlegu verkefni, þó svo að hlutverk nemanda í þessu verkefni væru mjög ólík eftir áföngum. Rannsóknin og úrvinnsla hennar gekk rosalega vel og ég held að flestir nemendur, sem og kennarar, hafi verið ánægðir með það hvernig til tókst.

Sara Rós Hulda Róbertsdóttir