Sveitarstjórnarkosningar 2006

Ágætu lesendur Stykkishólms-Póstsins.
Ég þakka kærlega fyrir frábærar móttökur og stuðning sem ég hef hlotið frá íbúum bæjarins frá því ég tók við starfi bæjarstjóra síðast liðið sumar. 

[mynd]Ágætu lesendur Stykkishólms-Póstsins.
Ég þakka kærlega fyrir frábærar móttökur og stuðning sem ég hef hlotið frá íbúum bæjarins frá því ég tók við starfi bæjarstjóra síðast liðið sumar.  Einnig vil ég þakka þeim fjölmörgu sem lýst hafa yfir stuðningi við þá ákvörðun mína að taka fjórða sætið á D-listanum, lista sjálfstæðismanna og óháðra í komandi bæjarstjórnarkosningum.  Ég vil einnig með þessum skrifum greina ykkur frá því hvað réði þeirri ákvörðun minni að taka sæti á listanum. 
      Það hefur verið ákaflega ánægjulegt fyrir mig að koma aftur í Stykkishólm og frábært að gefa börnum okkar hjóna tækifæri til að upplifa frelsið sem börn njóta hér ólíkt því sem hægt er á höfðuborgarsvæðinu.  Það hefur einnig verið gaman að fá tækifæri til þess að bjóða þeim upp á sömu ævintýrin og við foreldrarnir upplifðum sjálf sem börn.  Enda blómstrar fjölskyldan hér í Hólminum þó svo að pabbi þeirra sæki vinnu út fyrir bæjarmörkin.  Því aðstæður okkar eru í sjálfu sér ekkert frábrugðnar því sem margir aðrir búa við og fjölskyldur sjómanna til dæmis þekkja mæta vel.
      Þegar ég var ráðin sem bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar af núverandi meirihluta, D-listanum, sátu fulltrúar L-listans hjá og studdu því ekki við ráðningu mína.  Þegar ég tók ákvörðun um að taka sæti á listanum hafði enginn af fulltrúum L-listans rætt þann möguleika við mig að til þess gæti komið að fulltrúar L-listans hefðu áhuga á því að ráða mig áfram sem bæjarstjóra, næðu þeir meirihluta í komandi kosningum.
      Starf bæjarstjóra er ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt starf og kemur víða við.  Það reynir að sjálfsögðu á og tekur tíma að sinna því en það er líka það sem gerir starfið bæði krefjandi og skemmtilegt.  Það getur oft tekið tíma að komast að niðurstöðu og þannig reynt á þolinmæðina, enda margir sem koma að ákvörðunarferlinu s.s. fulltrúar nefnda bæjarins, kjörnir bæjarfulltrúar og auðvitað íbúar bæjarins.  En þannig virkar jú lýðræðið og opin stjórnsýsla þegar leitast er við að komast að bestu niðurstöðunni.  Það hefur verið ákaflega ánægjulegt að starfa með öllu þessu fólki og vona ég svo sannarlega að áframhald verði á samstarfinu. 
      Þar sem það er eindreginn vilji minn að vera áfram hér í Hólminum og fá tækifæri til að starfa lengur með öllu því góða fólki sem hér er mat ég það mun heillavænlegri kost að taka sæti á listanum.  Gefa þar með íbúum Stykkishólms tækifæri á því að kjósa sér bæjarstjóra og standa þannig sjálf eða falla með vilja íbúa bæjarins.  Ég hef hingað til unnið af heilum hug fyrir alla íbúa bæjarins og á því verður engin breyting. 
      Þegar gengið verður til kosninga hvet ég þig lesandi góður til að gaumgæfa vandlega eigin sannfæringu með það í huga að kjósa til verka það fólk sem þú treystir best fyrir málefnum og uppgangi bæjarfélagsins.  
Að lokum hvet ég alla til að nýta sinn lýðræðislega kosningarétt á kjördag.  Bærinn þinn á það skilið.

                                                                                           Erla Friðriksdóttir
                                                                                          bæjarstjóri,
                                                                                          skipar 4. sæti á D-lista