Syngjandi kveðja

Ágætu Hólmarar,

Nú er vetrarstarf Kórs Stykkishólmskirkju að byrja n.k. þriðjudag og mig langar að fara aðeins yfir kórstarfið.

Við byrjum yfirleitt um miðjan september og er þá oft farið í að æfa upp stærri verk til að eiga í bakhöndinni. Einnig æfum við fyrir hefðbundnar messur, en í messusöng reynum við að skipta hópnum í tvennt. Svo er farið að æfa fyrir jólasönginn, sem mörgum finnst besti kórtími ársins, oft setjum við í tónleika fyrir jól og á vorin og það er virkilega gaman. Jóla- áramóta- páska- og fermingarmessur eru mjög gefandi og skemmtilegar stundir.

Sumarfrí er um miðjan júní til september, við erum þó alltaf klár á bakvaktinni ef kemur að jarðarför, þá þjappast hópurinn enn betur saman og allir reyna að mæta.

Nú er staðan þannig að okkur vantar fleiri í kórinn, við erum jú öll að eldast því hvet ég fólk til að mæta og prófa með okkur næstkomandi þriðjudag eða bara seinna ef þannig stendur á. Æfingar byrja kl: 19:30 alla þriðjudaga.

Að vera í þessum kór er gefandi og virkilega gaman, einnig koma erfiðar stundir við erfið verkefni en þá er þetta þéttur hópur sem stendur saman eins og klettur.

Við erum farin að prófa samæfingar með hinum kirkjukórunum á Nesinu og sjáum til hvað kemur út úr því, næsta vor.

Nú bið ég þig, ef þú hefur pínulítinn áhuga, að annaðhvort hafa samband við mig í síma 893 7050 eða bara mæta á æfingu það verður tekið vel á móti þér – og þú þarft ekki að gera stóra hluti strax þetta bara kemur. Þegar ég byrjaði þá hafði ég aldrei sungið eftir nótum vissi ekki hvað það var svo kom þetta bara með góðra manna hjálp.

Kór Stykkishólmskirkju verður að lifa áfram, við erum öll sammála um það! Komdu og hjálpaðu okkur svo hann standi undir nafni.

Með syngjandi kveðju, Agnar Jónasson, formaður