Tækifærin eru á Snæfellsnesi 

Íbúar fárra landshluta á Íslandi eru betur í sveit settir en íbúar á Snæfellsnesi. Þar er byggðin í mikilli nálægt við gjöful fiskimið, góð tenging samgönguæða er við stærsta markaðssvæði landsins, einstök náttúrufegurð með Eldborg, Löngufjörur, Ljósufjöll, Breiðafjarðareyjar, Kirkjufell, Búðahraun, Þjóðgarðinn og Snæfellsjökul sem laðar að ferðamenn og  þjónustan við íbúa er í flestu eins og best verður á kosið. Það eru því mörg tækifæri fyrir fjárfesta og þá sem eru framtakssamir til þess að grípa boltann á lofti og skapa ný störf fyrir vel menntað ungt fólk sem kemur á vinnumarkaðinn og vill setjast að  í heimi náttúrufegurðar og tækifæra. Þróunarfélag Snæfellinga var stofnað til þess að skapa vettvang svo nýta mætti samtakamátt atvinnulífsins á svæðinu í þeim tilgangi að stuðla að bættum búsetuskilyrðum. Þróunarfélagið hefur í samstarfi við Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Atvinnuráðgjöf Vesturlands mótað Framtíðarsýn fyrir Snæfellnes næsta áratuginn. Að því verkefni komu um fimmtíu heimamenn og ráðgjafar

Íbúar fárra landshluta á Íslandi eru betur í sveit settir en íbúar á Snæfellsnesi. Þar er byggðin í mikilli nálægt við gjöful fiskimið, góð tenging samgönguæða er við stærsta markaðssvæði landsins, einstök náttúrufegurð með Eldborg, Löngufjörur, Ljósufjöll, Breiðafjarðareyjar, Kirkjufell, Búðahraun, Þjóðgarðinn og Snæfellsjökul sem laðar að ferðamenn og  þjónustan við íbúa er í flestu eins og best verður á kosið. Það eru því mörg tækifæri fyrir fjárfesta og þá sem eru framtakssamir til þess að grípa boltann á lofti og skapa ný störf fyrir vel menntað ungt fólk sem kemur á vinnumarkaðinn og vill setjast að  í heimi náttúrufegurðar og tækifæra. Þróunarfélag Snæfellinga var stofnað til þess að skapa vettvang svo nýta mætti samtakamátt atvinnulífsins á svæðinu í þeim tilgangi að stuðla að bættum búsetuskilyrðum. Þróunarfélagið hefur í samstarfi við Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Atvinnuráðgjöf Vesturlands mótað Framtíðarsýn fyrir Snæfellnes næsta áratuginn. Að því verkefni komu um fimmtíu heimamenn og ráðgjafar. Í kjölfar þeirrar vinnu var efnt til ráðstefnu  með góðum gestum þar sem spurt var; hvernig styrkjum við stöðu atvinnulífsins á Snæfellsnesi og sköpum fleiri og betri störf í anda þeirrar framtíðarsýnar sem mótuð hefur verið? Í samstarfi við MATÍS hefur verið leitað nýrra kosta við nýtingu auðlinda Breiðafjarðar. Tilgangurinn með þessari grein er að vekja athygli á nokkrum þáttum samfélagsins á Snæfellsnesi  sem vinna þarf að og efla með öllum tiltækum ráðum. Í eftirfarandi punktum eru dregin fram atriði sem vert er að vekja athygli á.

Viðskiptabankar og fjármálastofnanir sem eiga í viðskiptum við Snæfellinga þurfa að þekkja sinn vitjunartíma og eiga frumkvæði að samstarfi og úrbótum í stað þess að bíða og bíða. Það eru tækifæri fyrir fjárfesta og fjármagnseigendur á Snæfellsnesi. Nýsköpunarsjóðir hljóta að eygja tækifærin og stuðla að raunhæfum uppbyggingarverkefnum og hafa frumkvæði. Þjóðin þarf á því að halda ekki síður en Snæfellingar.

Það er mikil þekking í sjávarútvegi á Snæfellsnesi sem má virkja enn frekar en gert er.

Höfuðstöðvar Fiskmarkaðar Íslands eru á Snæfellsnesi og um landið allt liggur þétt net á vegum flutningafyrirtækja sem sjá um að koma fersku úrvals sjávarfangi Snæfellinga  á innlenda og erlenda markaði.

Lífmassi Breiðafjarðar með krabbadýr, þang og þörunga er lítt nýttur enn sem komið er. Þar bíða tækifærin eftir samstarfi fyrirtækja, einstaklinga og  þeirra byggða sem liggja að gullkistu Breiðafjarðar.

Heitar og kaldar lindir sem finnast víða á Snæfellsnesi skapa skilyrði til fiskeldis þar sem jarðnæði gefur tilefni til. Stutt er á markað innanlands og stutt á alþjóðaflugvöllinn.

Miklir uppbyggingarmöguleikar eru í þjónustu við ferðamenn sem sækja í einstaka náttúrufegurð, siglingar, hestaferðir, sögustaði, söfn, tónleikahald í kirkjum og bæjarhátíðir.

Jarðvarmi er víða og gefur ný tækifæri til uppbyggingar heilsutengdrar ferðaþjónustu.

Góðar bújarðir skapa skilyrði fyrir hefðbundinn búskap.

Mennta og rannsóknarstofnanir skapa margþætt atvinnutækifæri fyrir vel menntaða einstaklinga. Þar má nefna grunnskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Háskólasetur H.Í., Náttúrstofu Vesturlands, starfstöð Hafró, Sjávarrannsóknarsetrið Vör og starfsstöð Matís. Og í gangi  eru rannsóknir Sjávarorku ehf. þar sem virkjunarkostir sjávarfalla eru rannsakaðir.

Snæfellingar eiga góða granna á Vestfjörðum, í Dalasýslu og í Mýra og Borgarfjarðarsýslu. Náið samstarf milli héraða er mikilvægur lykill að velmegun íbúanna.

Í þessari stuttu samantekt er vakin athygli á þeim möguleikum sem búa í náttúruauðlindum og samfélaginu á Snæfellsnesi. Það er markmið Þróunarfélags Snæfellinga að efna til samstarfs innan atvinnulífsins og við opinbera aðila í þeim tilgangi að  bæta búsetuskilyrði og byggja á þeim sterka grunni sem til staðar er.

Þróunarfélag Snæfellinga ehf. heldur aðalfund föstudaginn 7.júní kl.15 á Hótel Hellissandi. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða flutt erindi um starfsemi Sjávarklasans í Reykjavík og einnig um starfsemi MATÍS og samstarf Þróunarfélagsins við bæði þessi fyrirtæki sem vinna að margvíslegum nýsköpunarverkefnum.

Sturla Böðvarsson framkvæmdastjóri Þróunarfélags Snæfellinga