Tagliatelle með ofnbökuðu grænmeti og hráskinku

Ég þakka henni Ellu vinkonu minni fyrir að bjóða mér að taka við pennanum, geri það með glöðu geði. Mér þætti reyndar eðlilegt að hún Ella hefði bara spes hollustu-matardálk í Póstinum þar sem hún er alltaf að prufa eitthvað nýtt og spennandi í heimi lág-kolvetna mataræðis. Þetta er frábær hugmynd hjá mér.
Ég er mjög hrifin af Ítölskum mat, enda yfirleitt góður og einfaldur. Þess vegna ætla ég að gefa ykkur uppskrift af auðveldum og sjúklega góðum ítölskum pastarétti.

Það sem þú þarft er:
Tómatar (ég nota 8-12 stk)
Sveppir
-svo má bæta við grænmeti sem til er í ískápnum.
Hvítlaukur 3-4 geira
Extra virgin Ólivuolía
salt
pipar
Parmesan
Tagliatelle
Parmaskinka
Ruccola-kál

Það sem þú gerir:
Sneiðir niður tómatanna og það grænmeti sem þú vilt nota, setur í eldfast mót og hellir vel af ólífuolíunni yfir gumsið, setur salt og pipar, kremur hvítlaukinn yfir og hrærir þessu saman.
Setur í ofn við 180 gráður og lætur malla þar til tómatarnir eru orðnir grautlinir og sprungnir. Þá má setja vel af rifnum parmesan yfir.
Sjóðið pastað “ al-dente”.

Berið svo herlegheitin fram með meira af parmesan, hráskinku og ruccola-salati, svo skemmir ekki að hafa rautt eða hvítt í glasi og gott ítalskt brauð með.

Þar sem hún Bylgja systir var svo heppin að koma í heimsókn í dag, þá sendi ég uppskriftarpennann að sjálfsögðu yfir til hennar.

Þórný Alda Baldursdóttir