Takk fyrir okkur

Titill greinarinnar gefur e.t.v. endalok til greina en svo er alls ekki. Framboðið Okkar Stykkishólmur vill einfaldlega þakka kærlega fyrir viðtökur, hjálp, stuðning og margt margt fleira í aðdraganda kosninga.
Það þurfti óeigingjarna vinnu fjölda fólks til að marka stefnu framboðsins. Þeim verðum við ævinlega þakklát. Íbúar sem mættu á málefnafundi okkar og viðruðu skoðanir sínar áttu jafnmikinn þátt í að skapa framboðið rétt eins og frambjóðendur. Einnig þeir sem komu að máli við okkur, hvort sem það var úti á götu eða á kosningaskrifstofu okkar. Tónlistarfólkið sem spilaði undir á viðburðum okkar. Vinnustaðir sem tóku á móti okkur. Svona mætti lengi telja. Þetta var samheldið átak sem skilaði sér í flottu og málefnalegu framboði.
Síðustu vikurnar fyrir kosningar fóru margar vökustundir frambjóðenda í undirbúningsvinnu og yfirlegu. Þessir frambjóðendur vilja fyrst og fremst þakka fjölskyldum sínum þolinmæðina og stuðning.
Við fundum greinilega fyrir því að gildi okkar og áherslur snertu við íbúum bæjarins og munum við halda okkar góðu vinnu áfram. Dyr okkar standa ávallt opnar og erum við tilbúin að taka á móti sjónarmiðum íbúa.
Tvö sæti í bæjarstjórn hjá nýju og óháðu framboði teljum við frábæran árangur og þökkum við öllum sem áttu þátt í að gera okkur kleift að ná þeim árangri.
Við viljum að lokum óska H- og L-lista til hamingju með árangur sinn í kosningunum og erum við full tilhlökkunnar til samstarfssins og vinnu í þágu Stykkishólmsbæjar.

-Okkar Stykkishólmur