Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Það er áfram verk að vinna í Stykkishólmi

Nú þegar ég hef lokið störfum á seinna tímabili mínu sem bæjarstjóri langar mig til þess að rifja upp aðdraganda þess að ég, fæddur og uppalinn Ólsari, flutti með eiginkonu minni og börnum frá höfuðborginni og varð Hólmari. Allt frá fyrsta degi í Stykkishólmi hef ég haft þá köllun að hér sé verk að vinna og í Hólminum séu ótal margir ónýttir möguleikar til að efla atvinnulífið sem og á öllu Snæfellsnesinu.

Var sóttur suður.

Vorið 1974 komu hreppsnefndarmennirnir Ellert Kristinsson, þáverandi  framkvæmdastjóri Trésmiðju Stykkishólms og Einar Sigfússon, skrifstofustjóri Búnaðarbankans í Stykkishólmi og síðar útibússtjóri, til mín þar sem ég sat önnum kafinn á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen í Reykjavík og reiknaði og teiknaði burðarvirki í hús, hannaði lagnakerfi og vann áætlanir um ýmsar framkvæmdir sem voru vítt og breitt um landið. Erindi þeirra var að hvetja mig til þess að sækja um starf sveitarstjóra í Stykkishólmi. Aðrir í hreppsnefndinni voru Ágúst Bjartmars byggingameistari og oddviti, Hörður Kristjánsson byggingareftirlitsmaður, Einar Karlsson formaður Verkalýðsfélags Stykkishólms, Leifur Kr. Jóhannesson búnaðarráðunautur  og Ólafur Kristjánsson framkvæmdastjóri Vélsmiðju Kristjáns Rögnvaldssonar og síðar Skipavíkur. Þessi hópur vann allt kjörtímabilið að bæjarmálunum sem væru þeir í einum og sama flokki.

Ævintýraferð sem endaði vel.

Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá í hvaða ævintýraferð  var verið að bjóða mér. Listi Sjálfstæðismanna og óháðra hafði unnið frækilegan kosningasigur í bæjarstjórnarkosningunum  vorið 1974 og höfðu þeir Ellert og Einar það hlutverk að ráða sveitarstjóra. Áður en varði vorum við Hallgerður komin af stað vestur með börnin okkar þrjú sem við áttum þá og leigðum tímabundið út íbúðina sem við áttum í borginni því við vorum ekki viss um hversu lengi þetta ævintýri  stæði. Hannes Gunnarsson flutti búslóð okkar vestur á flutningabíl sínum og við settumst að á Skólastíg 24. Við fluttum síðan inn í húsið okkar við Ásklif 20 nýbyggt árið 1982 og erum hér enn, þrátt fyrir nokkra útivist á árunum þegar ég var þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis og Hallgerður stundaði nám í lögfræði og starfaði sem lögfræðingur. Í sautján ár var ég sveitarstjóri og bæjarstjóri í Stykkishólmi og bæjarfulltrúi síðustu árin með þingmennsku samtals tæp tuttugu ár 1974 til 1994. Því rifja ég þetta upp að þessi tími var ótrúlegur uppgangs- og framkvæmdatími hér í Stykkishólmi og hreint ævintýri fyrir ungan mann að fá tækifæri til þess  að taka þátt í því öllu með frábæru fólki í hreppsnefnd og síðan bæjarstjórn. Á þessu kjörtímabili sem nú er að ljúka hefur tekist að lyfta Stykkishólmi aftur upp á þann stall framfara, bjartsýni og uppbyggingar sem einkenndi allt það tímabil eftir að skelveiðar hófust af krafti og ferðaþjónustan tók að blómstra með byggingu hótelsins sem nú er Fosshótel. Ég er viss um að bærinn okkar getur vaxið enn frekar á næstu árum ef atvinnutækifærunum fjölgar með aukinni nýtingu auðlinda í Breiðafirði, virkjun sjávarfalla og frekari uppbyggingu í ferðaþjónustunni.

Það var ekki fárast um framkvæmdir.

Eins og við þekkjum þá hefur verið fárast yfir því að við tókum í notkun í byrjun þessa árs 550 fermetra hús sem bærinn byggði yfir bókasöfnin og Ljósmyndasafnið til þess að efla almenna bókmenningu  og bæta aðstöðu við grunnskólann með betri vinnuaðstöðu nemenda og kennara. Það var og er vissulega verðugt verkefni. En sú framkvæmd er smá í sniðum  miðað við það sem bæjarbúum tókst að byggja upp á áttunda og níunda áratugnum.

Ég ætla til fróðleiks fyrir aðflutta og yngri bæjarbúa að rifja einkum upp stærstu verkefnin sem unnin voru í bæjarmálunum á umræddum tíma. Það var næg atvinna í sjávarútvegi m.a. við skelveiðar og vinnslu ásamt vaxandi ferðaþjónustu, mikilli grósku í byggingariðnaði, veruleg umsvif voru hjá Kaupfélaginu, Verslun Sig. Ág. og síðan Hólmkjöri, mikil og stöðug verkefni voru hjá Skipavík og vaxandi starfsemi á sjúkrahúsinu.

Tímabil framkvæmda.

Á þessu tímabili mikilla framkvæmda var lokið við að leggja nýja vatnsveitu til bæjarins árið 1978 og var það stórvirki. Jafnframt voru endurnýjaðar nær allar vatnslagnir og skólplagnir í götum bæjarins, lögð olíumöl eða steypt slitlag á allar götur nema Laufásveginn og  gangstéttar steyptar. Bærinn eignaðist þriðjungs hlut í Skipasmíðastöðinni Skipavík, austurkanturinn í Stykkishöfn var byggður,  höfnin í Skipavík byggð, dráttarbrautin endurbætt mikið,  ferjuhöfnin í Súgandisey byggð, flotbryggjur  settar upp og hafnarhúsið byggt. Áhaldahúsið eflt með rekstri gröfu og vörubíls. Blokkin við Skúlagötu 9 var byggð ásamt sjö leigu-og söluíbúðum við Garðaflöt. Félagsheimilið og hótelið byggt og rekstur Hótel Stykkishólms hafinn árið 1977. Var sú framkvæmd fjármögnuð að hluta með því að  samið var við menntamálaráðuneytið um að efstu bekkir skólans væru í hótelinu yfir veturinn uns skólinn var byggður og tekinn í notkun 1985. Íþróttavöllurinn var byggður upp, læknisbústaðurinn að Ægisgötu 2 byggður með ríkinu, grunnskólinn við Borgarbraut byggður, hafinn rekstur framhaldsdeildar við grunnskólann sem síðar varð hluti FSN, leikvellir byggðir upp, Setrið byggt, íþróttahúsið byggt og tekið í notkun. Sjúkrahúsið var  stækkað og byggð heilsugæslustöð í samstarfi St.Fransickusreglunnar, Stykkishólmsbæjar og ríkissjóðs. Dvalarheimilið var sett á stofn, byggðar þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Dvalarheimilið og tekið við rekstri og eignarhaldi á Amtsbókasafninu af sýslusjóði. Þá voru ný íbúðahverfi skipulögð og byggð upp. Þar má nefna Sundabakka, Borgarbraut, Flatirnar, Ás og Neshverfi, Tjarnarmýri, Búðanes og Hamraendi. Hólmgarður var stækkaður um leið og Aðalgatan var færð og endurbyggð. Unnið var nýtt aðalskipulag sem tók mið af húsakönnun sem lagði grunn að friðun og endurbyggingu gömlu húsanna í bænum. Sérstakt átak gert í gróðursetningu í bæjarlandinu eftir skipulagi Reynis Vilhjálmssonar landslagarkitekts og Kaupfélagshúsið keypt af SÍS til að verða ráðhús. Og síðast en ekki síst skapaðar aðstæður svo söfnuðurinn gæti reist kirkjuna á þeim einstaka og glæsilega stað sem hún stendur á og gnæfir yfir Maðkavíkina og setur mikinn svip á bæjarmyndina. Það er vissulega einnig ástæða til að minnast þess sem gert var kjörtímabilin eftir 1994 svo sem bygging sundlaugarinnar, lagning hitaveitunnar, bygging slökkvistöðvar og leikskóla. Öll þessi mannvirki lögðu grunn að enn betra samfélagi.

Bærinn er í blóma

Rétt er að taka það fram að þessi upprifjun er skrifuð eftir minni þar sem ég horfi yfir bæinn úr Ásklifinu og nota þau gögn sem ég hef hér við höndina. Leiðréttingar eru því þegnar ef eitthvað vantar í upptalninguna. Þessi upprifjun er auðvitað til þess gerð að vekja athygli á því hvað var gert á tilteknu ára bili. Þegar rætt er um bæjarmálin er ástæða til þess að muna eftir uppbyggingunni sem unnið hefur verið að og nýtist samfélaginu.

Á þessu kjörtímabili sem var að ljúka höfum við í bæjarstjórninni lagt grunn að ýmsum mikilvægum verkefnum sem horfa til framfara. Þar stendur efst lagfæring gatnakerfis, stækkun leikskólans, bygging Amtsbókasafnsins á 170 ára afmælisári safnsins, lagfæringar á herbergjum Dvalarheimilis og yfirtaka reksturs eldhúss sjúkrahússins og samningurinn um breytingar á sjúkrahúsinu og stækkun hjúkrunardeildar með sameiningu sjúkrahúss og dvalarheimilis en sá samningur mun marka tímamót þegar framkvæmdum lýkur. Það blasir við þeim sem vilja sjá að bærinn er í vexti og íbúum fjölgar. Um þessa jákvæðu stöðu mun ég skrifa síðar og rifja betur upp með lesendum Stykkishólmspóstsins, þegar færi gefst. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu á liðnum árum gott samstarf og óska eftirmanni mínum og nýkjörinni bæjarstjórn góðs gengis. Það er vissulega verk að vinna í okkar fagra bæjarfélagi svo hin jákvæða þróun haldi áfram og verði tryggð sem best.

Sturla Böðvarsson f.v. bæjarstjóri