Þankagangur um endurnýtingu viðar

Hér er settur fram þankagangur um endurnýtingu viðar. Hér á landi er miklu magni af viði hent árlega í formi húsgagna og innréttinga.

Hér er settur fram þankagangur um endurnýtingu viðar. Hér á landi er miklu magni af viði hent árlega í formi húsgagna og innréttinga.  Þarna leynast margar viðartegundir sem erfitt er að fá með öðrum hætti og eða mjög kostnaðarsamt að ná til.
Hvað húsgögnin varðar þá er ef til vill ekki um stór viðarstykki að ræða en það geta verið allmikil verðmæti í bútunum sem skólar og handverksfólk geta auðveldlega notað. Nefna má sem dæmi fætur af gömlum sófaborðum, fætur, setur og armar af stólum. Það er ekki bara að um  gamlan við sé að ræða heldur var og eru enn notaður úrvalsviður til húsgagnagerðar.
Í innréttingum má finna góða viðarbúta t.d í gömlum skápum svo eitthvað sé nefnt. Þessar viðartegundir sem ég er að horfa til eru tegundir eins og palisander, rósaviður, hnota, álmur, eik, askur, tekk og mahogany svo eitthvað sé nefnt en þessar viðartegundir hafa allar runnið sitt tískuskeið hér á landi gegn um árin.
Það má heldur ekki gleyma glugga- og hurðaefninu en þar leynist margur gullmolinn eins og gulgreni, gömul sænsk fura og rauðfura. Oftar en ekki eru þessi viðarstykki máluð og er þá auðveldast að saga sig og hefla frá málningunni frekar en að leysa hana af með kemískum efnum.
Hvað er svo hægt að gera úr þessu gamla rusli spyr einhver?  Það þarf t.d. ekki stór viðarstykki í rennda hálsfesti né renndan penna eða hnífsskefti og slíður. Tilvalið er að saga út jólaskraut úr þunnu efni. Þykkara efni er tilvalið í rennibekkinn þar sem verða til skálar, bollar, staup og stjakar og svo eru endalausir möguleikar í útskurði.
Rekaviðurinn er og ónefndur en að sjálfsögðu er hægt að vinna úr honum allt milli himins og jarðar en erfitt getur reynst að halda biti í vélum og verkfærum svo vel sé vegna þess að oftar en ekki er viðurinn búinn að hnoðast vikum og jafnvel árum saman í fjörunum og því hafa steinar og sandur þrýstist langt inn í viðinn.
Rétt er að hafa í huga þegar gamall viður er endurnýttur að gæta þarf vel að nöglum og skrúfum áður en viðurinn er sagaður niður í vélum eins og bandsög eða ristisög. Yfirleitt er viðurinn frekar þurr og neistar frá nöglum geta auðveldlega tendrað bál þegar minnst varir.
Í mínum huga eigum við að bera virðingu fyrir náttúrunni í heild sinni en ekki í pörtum og fullnýta það sem við getum. Parta um-hverfishugsjónir eiga ekki rétt á sér, við eigum að horfa til náttúrunnar sem einnar heildar og halda utan um hana þannig.  Það er mín skoðun að okkur beri að fullnýta náttúru-afurðir eins og við, eins og kostur er áður en við förum að brenna hann eða grafa eins og við gerum í dag.

Trausti Tryggvason