Þegar líða fer að jólum

Síðustu jól kvöddum við starf okkar á Skólastíg 11 og pökkuðum saman okkar hafurtaski og fluttum í „Langa skúrinn“.

Á Skólastígnum höfðum við verið í 5 ½ ár vaxið og dafnað og þróað okkar starf.

En við vorum löngu búin að sprengja utan af okkur húsnæðið. Eins og heyrst hafði þá var draslið orðið svo mikið í Ásbyrgi að það sást ekki lengur út um gluggana.

Já það var mikið verk að flytja enda fylgir endurnýtingu mikið dót og þarf því gott geymslurými. Við fengum góða aðstoð frá vinum okkar í áhaldahúsinu.

En í stuttu máli sagt þá höfum við komið okkur vel fyrir í Langa skúrnum.

Með flutningunum kom upp aðstaða til að hafa nytjamarkað. Það var gamall draumur sem nú gat orðið að veruleika. Enda fellur það vel að okkar starfi, gefur gleði og aukið líf. Auk þess er það skynsemin ein að nýta hlutina betur.

Búðin okkar er tvískipt, annars vegar nytjamarkaðurinn og hins vegar okkar vörur. Vöruúrvalið okkar er alltaf að aukast og nýjar hugmyndir fæðast og þróast. Það veltur allt á því sem inn kemur hvað er búið til. Það má til gamans geta þess að lengi var þráður í útikerti, lím og tvinni það eina sem keypt var til verkefnavinnu. Nú höfum við lært að búa til kertaþræði sem virka mjög vel.

Þannig að útikertin okkar eru búin til úr kertaafgöngum, þráðurinn gerður úr nokkrum tegundum af bómullargarni og dósin er undan matvælum. Síðan er þetta skreytt ýmist með afgangs málningu eða gömlum servíettum. Þetta er snilldin ein.

Þegar við hófum starfsemi var markmiðið tvíþætt, og er enn. Það er annars vegar að aðstoða fatlaða við að fá og halda vinnu á almennum vinnumarkaði og hins vegar að skapa verkefni í Ásbyrgi. Þannig að verkefni væri í boði frá kl. 8 – 16 alla virka daga. Þessu markmið náðum við nú í lok árs. Það starfa allir á almennum vinnumarkaði líka. Það er ekki bara gaman heldur gefur það svo miklu meira að vera þátttakandi í víðum skilningi.

Ný verkefni á okkur vegum sem komið hafa vel út eru „Pokar að láni í Bónus“ og „Bækur að gjöf“.

Í Ásbyrgi starfa 16 starfsmenn í mismiklu starfshlutfalli. Verkefnastaðan er góð, nægur efniviður og fólk er duglegt að sjá tækifæri í okkar starfi. Við höfum svo sannarlega lífgað upp á miðbæinn og útihúsgögnin okkar hafa nýst vel fyrir gesti og gangandi.

Við fáum pantanir sem við leggjum okkur fram um að leysa sem best.

Við viljum líka leggja okkar að mörkum til samfélagsins t.d. lögðum við kvenfélaginu lið með jólapokum fyrir jólabasarinn. Einnig glöddum við leikskólann með bangsarúmum. Daglega eru ferðir frá okkur í Rauða kross gáminn. Við komum gleraugum til blindrafélagsins og umslögum með frímerkjum á til Kristniboðssambandsins. Auk þess komum við kuldafatnaði til „Frú Ragnheiðar“ og ýmislegt fleira.

Við höfum á þessum 6 árum eignast marga ótrúlega góða vini sem hafa stutt okkar starf með ráðum og dáð. T.d. hefur hún Elín okkar unnið sem sjálfboðaliði hjá okkur í 3 ár. Af henni er margt hægt að læra. Narfeyrarstofa hefur styrkt okkur með gleri frá veitingastaðnum og er það ekki lítið magn enda flottur staður. Sama er að segja með Harbour Hostel.

Gretar D. Pálsson og Gunnar Hinriksson hafa báðir styrkt okkur rausnarlega. Viljum við í Ásbyrgi þakka þessum aðilum ásamt öllum öðrum sem lagt hafa okkur lið án ykkar værum við ekki sá staður sem við erum í dag.

Eins og þeir sem til þekkja vita eru ekki alltaf jólin á svona vinnustað. En við gerum okkar besta og leggjum okkur fram um að gera góðan vinnustað enn betri.

Þessa viku erum við í „Hrósleik“ sem virkar svipað og leynivinaleikur nema hér er um hrós að ræða sem sett er í krukku merkta eigandanum og síðan les hver upp úr sinni krukku á næsta starfsmannafundi. Með þessu skerpum við kærleikann og aukum jákvæðni í daglegu starfi.

Vona að guð og gæfan gefi okkur öllum gleðilega hátíð.

Með kveðju úr Ásbyrgi, Hanna Jónsdóttir