Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Þér er boðið á þrususpennandi fyrirlestraröð!

Á næstu vikum og mánuðum stendur Náttúrustofa Vesturlands fyrir röð opinna fræðsluerinda um fjölbreytt viðfangsefni sem tengjast umhverfi okkar og náttúru. Erindin verða alls 10 og flutt af helstu sérfræðingum landsins um viðkomandi efni, ýmist heimafólki eða gestum. Það er von skipuleggjenda að allir finni eitthvað sem vekur áhuga og að sem flestir nýti sér þetta einstaka tækifæri.

Áhugafólk um hafið getur fræðst um súrnun sjávar og afleiðingar hennar og hvaða ógnir og tækifæri felast í landnámi nýbúans grjótkrabba. Þessi tvö erindi verða haldin í samstarfi við Stykkishólmshöfn. Fjallað verður um fatasóun og matarsóun en þekking á hvoru tveggja getur dregið úr útgjöldum heimilisins ásamt því að hlífa umhverfinu. Þeir sem áhuga hafa á ránspendýrum landsins geta hlakkað til að hlusta á erindi um minka, refi og ketti. Einnig geta náttúruunnendur og áhugafólk um umhverfi sitt lært að lesa betur landið, fræðst um mikilvægi Breiðafjarðar fyrir fugla og kynnst varphegðun hins ástsæla æðarfugls.

Fyrirlestrarnir eru ætlaðir almenningi og eru allir velkomnir. Ávallt verður ókeypis inn og heitt á könnunni. Dagsetningar allra erinda má finna í auglýsingu í þessu blaði og nánari upplýsingar um efnistök og fyrirlesara má finna á Fésbókarsíðunni „Fyrirlestraröð Náttúrustofu Vesturlands vorið 2017“ og á heimasíðu Náttúrustofu Vesturlands, www.nsv.is. Hver viðburður verður einnig auglýstur sérstaklega þegar nær dregur, en auðvitað er best að taka strax frá þau kvöld sem vekja áhuga!

Sjáumst!