Þóra Stefánsdóttir

Þóra Stefánsdóttir 3. sæti H-listans

Þar sem sumir kunna aðeins að þekkja mig sem „tengdadóttur Emils og Hrafnhildar“ eða „Þóru hans Dags“ er rétt að ég geri stuttlega grein fyrir mér og minni reynslu sem snýr að málefnum sveitarfélaga. Ég er Þingeyingur, fædd og uppalin á Svalbarðseyri við Eyjafjörð en bjó sl. 10 ár í Reykjavík, áður en ég flutti í Hólminn síðasta sumar ásamt eiginmanni mínum og börnunum okkar þremur. Ég hef hvort tveggja lokið grunnprófi í félagsráðgjöf og lögfræði og mun ljúka meistaranámi í lögfræði frá Háskóla Íslands í vor. Velferðarmál, og sér í lagi félagsþjónusta á vegum sveitarfélaga, eru mér mjög hugleikin. Í náminu lagði ég meðal annars stund á sveitarstjórnar-, stjórnsýslu- og félagsmálarétt og er meistararitgerð mín á því sviði en hún fjallar um mismunandi skilyrði sveitarfélaga við veitingu fjárhagsaðstoðar. Þá starfaði ég samhliða náminu hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar þar sem ég öðlaðist dýrmæta reynslu.
Félagsþjónusta er veitt á grundvelli rammalaga þar sem kveðið er á um margvísleg réttindi en útfærslan er í höndum hvers sveitarfélags fyrir sig með hliðsjón af sjálfstjórn þess. Ég tel að Stykkishólmur hafi alla burði til þess að gera enn betur til að stuðla að bættum lífsgæðum þeirra íbúa sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda af einhverju tagi. Fyrir hendi eru tækifæri til aukinnar hagræðingar um leið og þjónusta er efld. Ljóst er að málaflokkurinn á að stórum hluta undir Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga og því margt sem þarf að vinna í samráði við byggðasamlag Eyja- og Miklaholtshrepps, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar, Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar. Þess utan eru ýmis mál eingöngu á forræði Stykkishólmsbæjar. Fjölmargt gott hefur verið gert en sumt má betur fara. Mikilvægt er að endurskoða þjónustuna með reglubundnum hætti, meta hvaða þættir þarfnast úrbóta og bregðast við því. Að mínu mati þarf annars vegar að móta umgjörð og skýra reglur og hins vegar að bæta ákveðna þjónustuþætti við íbúa. Akstursþjónusta aldraðra og fatlaðs fólks, félagslegt leiguhúsnæði, búsetuúrræði fatlaðs fólks og þjónusta við innflytjendur eru allt þættir sem þarfnast aukinnar athygli og útfærslu.
Ég tel það samfélagslega ábyrgð mína að taka þátt í nærumhverfi mínu og gef því kost á mér í komandi sveitarstjórnarkosningum. Að endingu vil ég minna á málefnavinnu listans sem fer fram nk. laugardag og hvetja áhugasama til að taka þátt í henni með okkur.

Þóra Stefánsdóttir
3. sæti H-listans