Þróun sjálfbærnivísa fyrir ferðamennsku

Sameinuðu þjóðirnar hafa til­einkað nýbyrjað ár, 2017, sjálfbærri ferðamennsku. Megináherslur í ferðamálaáætlunum stjórnvalda síðastliðna áratugi hafa ítrekað verið á mikilvægi þess að stuðla að sjálfbærri ferðamennsku. En hvað hefur áunnist? Hversu sjálfbær er íslensk ferðamennska í dag á alþjóðlegu ári sjálfbærrar ferða­mennsku?

Flest svæði á hinum svokallaða „rauða lista“ Umhverfisstofnunar um friðlýst svæði í hættu eru þar vegna ágangs ferðamanna. Sjálf­bær ferðamennska er því sér­staklega mikilvæg á friðlýstum svæðum. Fyrir tilstuðlan styrks frá Stjórnstöð ferðamála ýtti Háskóli Íslands úr vör síðastliðið haust rannsóknarverkefni sem beinir sjónum að þróun sjálfbærnivísa fyrir ferðamennsku á friðlýstum svæðum hér á landi. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var valinn sem tilviksrannsóknarsvæði.

Sjálfbær þróun krefst sam­þættingar vistfræðilegra, efna­hagslegra og félagslegra þátta í ákvarðanatöku. Þessi samþætting fæst einungis með heildrænni sýn á alla áhrifaþætti. Auk þess krefst sjálfbær þróun þess að horft sé langt fram á veginn. Til að beina áætlanagerð í átt að sjálfbærni er nauðsynlegt að styðjast við svokallaða sjálfbærnivísa. Sjálf­bærnivísar eru mælikvarðar til að meta þróun eða breytingar mis­munandi áhrifaþátta. Sjálfbærni­vísar hjálpa þannig til við að gera flókin ferli sem erfitt er að greina, sýnilegri og skiljanlegri og auka skilning á orsakasamhengi á milli hinna mismunandi áhrifa­ þátta. Sjálfbærnivísar fyrir ferða­mennsku nýtast þannig sem stýri­tæki til að halda utan um heildar­mynd margvíslegra áhrifa ferða­mennsku. Ef sjálfbærnivísar ná jöfnum höndum til samfélags, umhverfis og efnahags geta þeir gefið til kynna hvaða vandamál og tækifæri eru í sjónmáli og styrkt stoðir opinberrar ákvarðanatöku.

Til eru viðurkenndir sjálfbærni­vísar fyrir ferðamennsku sem þróaðir hafa verið af Alþjóðlegu ferðamálasamtökunum (UNWTO) og öðrum samtökum víða um heim. Unnin hafa verið drög að lista yfir sjálfbærnivísa ferða­mennsku fyrir þjóðgarðinn Snæ­fellsjökul sem byggir á niður­stöðum heimildarúttektar á til­tækum alþjóðlegum vísum og kortlagningu á viðkomustöðum ferðamanna ásamt landfræðilegri greiningu svæðisins.

Til þess að tryggja réttmæta aðlögun vísanna er hins vegar mikilvægt að fá viðhorf og þekkingu íbúa til að meta notagildi vísanna og viðunandi mælikvarða þeirra. Stefnt er að því að halda íbúaþing fyrir íbúa Snæfellsbæjar þann 20. febrúar n.k. Íbúaþingið verður haldið í gestastofu þjóðgarðsins við Malarrif og hefst kl. 18:30. Tilhögun og dagskrá þingsins verður auglýst síðar.

Verkefnið er unnið í samstarfi við þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Umsjón með verkefninu hefur Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Starfsmenn verkefnisns eru Kristín Rut Kristjánsdóttir og Guðmundur Björnsson doktors­nemar í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli