Til ritstjóra

Vegna skrifa ritstjóra Stykkishólmspóstsins í síðasta tölublaði viljum við undirrituð koma því á framfæri að í málefnavinnu D-listans höfum við mikið rætt um aldurshópinn 16 – 25 ára.

Vegna skrifa ritstjóra Stykkishólmspóstsins í síðasta tölublaði viljum við undirrituð koma því á framfæri að í málefnavinnu D-listans höfum við mikið rætt um aldurshópinn 16 – 25 ára.  Við stefnum að því, að í stefnuskrá okkar verði komið á Ungmennahúsi sem verði stjórnað af ungmennaráði, sem haldi utan um starfsemi hússins.  Til að mynda væri hægt að hafa þar tölvur, sjónvarp, aðstöðu fyrir hljómsveitir og fl. allt eftir óskum og þörfum unglingana. 
        Við viljum benda á að UMF Snæfell heldur úti mjög öflugu starfi fyrir alla.  Leikfélagið Grímnir hefur staðið sig vel undan farin ár, þar sem unglingarnir hafa verið virkir í starfseminni.  Golfíþróttin verður alltaf vinsælli ár frá ári, þar sem Golfklúbburinn Mostri heldur úti öflugri starfsemi yfir sumartíman.  Hesteigendafélagið sem hefur eflst og dafnað, hefur boðið upp á reiðnámskeið  fyrir alla aldurshópa.   
       Félagsmiðstöðin X-ið er með mjög góða starfsemi og verið liðlegt við aldurshópin 16 – 20 ára og Narfeyrarstofa hefur verið með opið hús á fimmtudagskvöldum fyrir þennan aldurshóp þar sem stuðlað er að vímulausri skemmtun. 
      Nemendafélag FSN hefur staðið að mörgum vímulausum skemmtunum og má þess geta að okkar heimafólk hefur staðið þar í fremstu víglínu.  Síðast en ekki síst þá hefur Stykkishólmsbær styrkt félagsamtök í bænum sem standa að íþrótta- og æskulýðsmálum.  Eins og sést þá er margt í boði og verður vonandi meira þegar fram líða stundir.

               „STÖNDUM VÖRÐ UM UNGLINGANA SEM VIÐ EIGUM“

 

                                Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson, form Snæfells

                                Björn Ásgeir Sumarliðason, gjaldkeri NFSN

                                Guðfinna D. Arnórsdóttir, starfsmaður í X-inu

                                Eydís Bergmann Eyþórsdóttir, ritari Snæfells.