Tilverukrísa

Þessi hélt að aflinn yrði eitthvað meiri ef hann færi í veiðivesti.
Þessi hélt að hann yrði aflameiri ef hann færi í veiðivesti.

Blaðamaður sá sem þetta skrifar hefur eingöngu lagt stund á blaðamennsku eftir hádegi hingað til. Fyrir hádegi hefur hann fengist við málningarvinnu ýmiskonar. Jafnvel svo góða vinnu að eftir henni er tekið, allavega segir amma það. Það mætti því segja að undirritaður upplifi sig sem einskonar ofurhetju sem fer huldu höfði meðal almennings í borgaralegum klæðum á daginn en taki svo upp pennavopn sitt síðdegis til að sinna varðhundshlutverkinu. Líka til að skrifa um kökubakstur o.þ.h.

Eitthvað skolaðist til á ritstjórnarskrifstofunni þegar ritstjórinn bað blaðamann um að taka upp spaða og spartl og bað hann góðfúslega, en með skýrum áherslum, að snyrta til veggjaviðbætur á skrifstofunni sem smíðaðar höfðu verið stuttu áður. Ruglaði þetta blaðamann svo mikið að allur taktur féll úr tilverunni. Nú var orðið erfitt að halda þessu tvöfalda lífi á lofti. Hvað hafði hornalisti á spónaplötu með almannahagsmuni að gera? Hvaða þýðingu hefur það fyrir lesendur að loka fyrir rústfríu skrúfurnar? Hver er heimildamaðurinn á bakvið uppljóstrun hliðarsjálfs blaðamannsins?

Sá sem þetta ritar mun eflaust ná sér þegar fram líða stundir en þangað til verður erfitt að lifa í henni veröld. Búast má við því að bæjarbúar vakni upp við það að áskorandahornið verði ritað með olíulakki á botnstykki glugga. Uppskrift vikunnar finnst líklegast krotuð með akrýlkítti á samskeytum í nýbyggingu og nýjustu fréttir bæjarmála verða skrifuð á húsgafl. Ef undirritaður verður ekki búinn að stilla sig af tímanlega verður heila opnu úr Stykkishólms-Póstinum að finna í opnu bókinni sem verður ofan á nýja bókasafninu.